Það er mér sönn ánægja að tilkynna að sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa hlotið endurnýjaða umhverfisvottun á starfsemi sinni frá EarthCheck samtökunum.

Eins og árlegt er orðið mætti óháður úttektaraðili, Haukur Haraldsson gæðastjóri hjá Verkís, á svæðið í febrúar. Eftir tveggja daga úttekt, þar sem meðal annars var farið rækilega yfir öll þau gögn sem verkefninu tengjast, mælti hann með því að EarthCheck endurnýjaði vottun sveitarfélaganna. Það gekk eftir og nú skarta sveitarfélögin á Snæfellsnesi gullvottun frá EarthCheck samtökunum fyrir árið 2014.

Vinna við umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi hófst árið 2003 og hefur verið unnið sleitulaust að verkefninu síðan. Í tilefni af tíu ára afmæli verkefnisins er unnið að gerð veglegs rits um umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaga. Ritið verður tvískipt; annars vegar verður fjallað almennt um umhverfisvottanir og aðrar leiðir sem sveitarfélög geta farið í átt að sjálfbærara samfélagi. Hins vegar verður fjallað um tíu ára reynslu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi af umhverfisvottun EarthCheck og gerð grein fyrir ávinningi hennar ásamt þeim hindrunum sem orðið hafa á veginum í gegnum tíðina, hvernig þeim hefur verið mætt og hvað betur mætti fara til þess að ná enn betri árangri. Ritið er ætlað sem upplýsingarit fyrir íbúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi sem og til leiðbeiningar fyrir önnur sveitarfélög sem vilja bæta sig í umhverfismálum.

Stefnt er að því að ritið verði tilbúið á næstu vikum og verður því dreift á öll heimili á Snæfellsnesi, svo íbúar geta farið að hlakka til.

 Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)

Deila