Snæfellsnes einn af hundrað grænustu áfangastöðum heims

Snæfellsnes er einn af 100 grænustu áfangastöðum heims samkvæmt nýbirtum lista sem opinberaður var í gær, 10. desember.

Um er að ræða verkefni sem kallað er „Global Top 100“. Þar er tekið saman yfirlit yfir þá hundrað staði í heiminum sem þykja skara fram úr á sviði umhverfismála.  Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra aðila sem hafa sérhæft sig í rannsóknum og markaðssetningu grænna áfangastaða og nefnast samtökin „Green Destinations“. Tilgangurinn er að veita áfangastöðum, sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi, viðurkenningu og auðvelda um leið kröfuhörðum ferðamönnum val um áfangastaði.

Listinn var fenginn þannig að kallað var eftir tilnefningum í gegnum samfélagsmiðla. Svo tók við þrjátíu manna dómnefnd skipuð sérfræðingum í ferðamálum og sjálfbærni, sem gaf einkunnir fyrir fjölmarga þætti, þar á meðal náttúru, umhverfi, náttúruvernd, menningararf og umhverfisvottun.

Áfangastöðunum 100 er ekki raðað í neina sérstaka röð en á heimasíðu verkefnisins má raða áfangastöðunum niður á mismunandi vegu eftir einkunnum fyrir hvern þátt.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Snæfellsnes og staðfesting á því að sú vinna sem hér er unnin er metin að verðleikum, sem mun vonandi skila sér samfélagsins. Umhverfismál skipta sífellt stærra máli í ferðaþjónustu og ferðamenn gera sífellt strangari kröfur til áfangastaða.

Talsmenn „Global Top 100“ hvetja ferðamenn til að velja áfangastaði sem vinna að raunverulegum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum. En viðurkennd vottun óháðs aðila, eins og umhverfisvottun Snæfellsness er, veitir einmitt aukinn trúverðugleika hvað það varðar.

Frekari upplýsingar er að finna á www.greendestinations.info.

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi tilnefnd til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014

Í ár eru náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs tileinkuð norrænu sveitarfélagi/bæjarfélagi/samfélagi sem hefur lagt sig fram um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í víðum eða þröngum skilningi. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð þrettán fulltrúum, tveimur frá hverju Norðurlandanna, einum frá Grænlandi, einum frá Færeyjum og einum frá Álandseyjum.

Dómnefndin hefur nú kunngjört ákvörðun sína um hvaða svæði hún tilnefnir til verðlaunanna árið 2014. Alls bárust þrjátíu tilnefningar frá almenningi og dómnefndin hefur valið þrettán þar út. Meðal þessara þrettán svæða eru sveitarfélögin á Snæfellsnesi og höfum við því færst örlítið nær markinu.

Endanlega ákvörðun um vinningshafann verður tekin í september en gerð opinber þann 29. október 2014 á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Frekari upplýsingar um verðlaunin er að finna á www.norden.org.

Þau þrettán svæði sem nefndin hefur tilnefnt eru:

 

 • Lokalsamfunnet Gjógv (Færøerne)
 • Gladsaxe, sveitarfélag (Danmörk)
 • Hallstahammars, sveitarfélag (Svíþjóð)
 • Jyväskylä, bær (Finnland)
 • Lejre, sveitarfélag (Danmörk)
 • Iin Kunta / Ljo, sveitarfélag (Finnland)
 • Middelfart, sveitarfélag (Danmörk)
 • Reykjavík, sveitarfélag (Ísland)
 • Saligaatsoq – Avatangiiserik, verkefni (Grænland)
 • Skaftholt í sveitarfélaginu Skeiða- og Gnúpverjahreppi (Ísland)
 • Snæfellsnes, samstarf fimm sveitarfélaga (Ísland)
 • Sólheimar (Ísland)
 • Växjö, sveitarfélag (Svíþjóð)

Vorboðinn ljúfi – endurnýjuð umhverfisvottun!

Það er mér sönn ánægja að tilkynna að sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa hlotið endurnýjaða umhverfisvottun á starfsemi sinni frá EarthCheck samtökunum.

Eins og árlegt er orðið mætti óháður úttektaraðili, Haukur Haraldsson gæðastjóri hjá Verkís, á svæðið í febrúar. Eftir tveggja daga úttekt, þar sem meðal annars var farið rækilega yfir öll þau gögn sem verkefninu tengjast, mælti hann með því að EarthCheck endurnýjaði vottun sveitarfélaganna. Það gekk eftir og nú skarta sveitarfélögin á Snæfellsnesi gullvottun frá EarthCheck samtökunum fyrir árið 2014.

Vinna við umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi hófst árið 2003 og hefur verið unnið sleitulaust að verkefninu síðan. Í tilefni af tíu ára afmæli verkefnisins er unnið að gerð veglegs rits um umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaga. Ritið verður tvískipt; annars vegar verður fjallað almennt um umhverfisvottanir og aðrar leiðir sem sveitarfélög geta farið í átt að sjálfbærara samfélagi. Hins vegar verður fjallað um tíu ára reynslu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi af umhverfisvottun EarthCheck og gerð grein fyrir ávinningi hennar ásamt þeim hindrunum sem orðið hafa á veginum í gegnum tíðina, hvernig þeim hefur verið mætt og hvað betur mætti fara til þess að ná enn betri árangri. Ritið er ætlað sem upplýsingarit fyrir íbúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi sem og til leiðbeiningar fyrir önnur sveitarfélög sem vilja bæta sig í umhverfismálum.

Stefnt er að því að ritið verði tilbúið á næstu vikum og verður því dreift á öll heimili á Snæfellsnesi, svo íbúar geta farið að hlakka til.

 Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)

Bláfánanum flaggað í 11. sinn við Stykkishólmshöfn

Á morgun, þriðjudaginn 2. júlí kl. 13:00, munu fulltrúar frá Landvernd afhenda smábátahöfninni í  Stykkishólmi  Bláfánann í 11. sinn.  Athöfnin fer fram við Hafnarvogina og eru íbúar og gestir Stykkishólms að sjálfsögðu velkomnir.

Bláfáninn var fyrst afhendur Stykkishólmshöfn þann 13. júní 2003. Smábátahöfnin í Stykkishólmi var fyrsta höfnin til að hljóta þessa alþjóðlegu viðurkenningu hér á landi.

Bláfáninn er alþjóðlegt merki fyrir hafnir sem uppfylla ströng skilyrði í umhverfis- og öryggismálum og hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Smábátahöfnum er veittur Bláfáninn hafi þær lagt sig fram um að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu í höfninni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þessi viðleitni á að treysta verndun umhverfis hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á og vera öllum þeim sem nota eða heimsækja höfnina til hagsbóta.

Það eru alþjóðasamtökin Foundation for Enviromental Education, sem Landvernd á aðild að, sem standa að baki þessu merki. Stykkishólmshöfn hefur hlotið þessa viðurkenningu og flaggað Bláfánanum á hverju ári síðan 2003.