Hvers vegna EarthCheck?

EarthCheck (áður Green Globe) er eini viðurkenndi vottunaraðilinn sem þróað hefur staðla sem hægt er að nota til vottunar á starfsemi sveitarfélaga. Mögulega munu fleiri viðurkenndir umhverfisvottunaraðilar, s.s. Svanurinn eða Evrópublómið, þróa svæðisstaðla en eins og staðan er í dag er þetta eini valkosturinn sem stendur til boða fyrir sveitarfélög sem vilja fá umhverfisvottun. Að baki EarthCheck standa öflugir aðilar, m.a. háskólar og ferðamálasamtök. Staðlar samtakanna taka mið af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Tekið skal fram að alþjóðlegi staðallinn ISO 14001 um umhverfisstjórnun jafngildir ekki umhverfisvottun. Hann nær yfir stefnumótun og markmiðssetningu varðandi umhverfisþætti en felur ekki í sér beinar viðmiðunarreglur um umhverfislega frammistöðu.