Vottunarsamtökin

Vottunarsamtökin EC3 Global eru alþjóðleg samtök með höfuðstöðvar í Ástralíu. Samtökin byggja á sterkum faglegum grunni og er þróað af fyrirtæki í eigu ástralska ferðamannaiðnaðarins, ríkisins og háskóla. Um er að ræða stærstu rannsóknamiðstöð ferðamála í heiminum og hefur það að markmiði að stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustunni. Samtökin sjá um að votta samfélög og ferðaþjónustuaðila og veita þeim umhverfismerki ef þau standast kröfur. Þau eru einu samtökin sem fram til þessa hafa umhverfisvottað starfsemi sveitarfélaga.

Samtök þessi hafa umsjón með EarthCheck vottunarkerfinu, sem byggir á hugmyndafræði Dagskrár 21 um ábyrga stjórnun og sjálfbæra þróun, en til verkefnisins var stofnað með stuðningi Alþjóða ferðamálaráðsins og Alþjóða ferðamálasamtakanna árið 1994. Í upphafi gekk vottunarkerfið undir nafninu Green Globe, en fyrri hluta árs 2010 varð breyting á og kerfið tók upp merki EarthCheck. Sömu vottunarsamtök standa að vottuninni og áður og hefur hún ekki breyst efnislega, aðeins nafnið. EarthCheck umhverfismerkið er notað á ferðaþjónustufyrirtæki og ferðaáfangastaði sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. Merkið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er stærsti vottunaraðili ferðaþjónustunnar, enda hafa samtökin vottað meira en 1100 aðila í yfir 65 þjóðlöndum í öllum heimsálfum. Erlendis er því um þekkt og traust umhverfismerki að ræða.

Staðallinn sem vottunarsamtökin vinna eftir veitir samfélögum ramma til þess að mæla frammistöðu sína og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum. Hann byggir á sex meginstoðum:

 1. Trygg stjórn samfélagsins og vottunarkerfisins.
 2. Gildandi lögum og reglugerðum er fylgt í hvítvetna.
 3. Sjálfbærnistefna í umhverfis- og samfélagsmálum.
 4. Framvkæmdaáætlun til fimm ára í senn, sem er endurskoðuð árlega.
 5. Skráningar- og vöktunarkerfi til að fylgjast með árlegri frammistöðu á 12 sviðum.
 6. Öflugt samráð við alla hópa samfélagsins, þannig að allir eigi þess kost að taka þátt í stefnumótuninni og koma athugasemdum á framfæri. Einnig er sett upp og framfylgt kynningaráætlun um framgang verkefnisins.

Þegar um vottun sveitarfélags er að ræða tekur vottunin til starfsemi sveitarfélagsins sjálfs, það er starfsemi stofnana og verkefna sem eru á þess vegum og ábyrgð. Vottunarferlið tekur ekki til fyrirtækja eða stofnana á vegum einkaaðila eða ríkis, sem staðsett eru í viðkomandi sveitarfélagi, að öðru leyti en að fjöldi umhverfisvottaðra fyrirtækja í sveitarfélaginu getur talist til tekna í vottunarferlinu og sumir sjálfbærnivísarnir byggja á mælingum á notkun allra íbúa á auðlindum, svo sem vatni og orku, og losun allra íbúa á úrgangi.

Munurinn á EarthCheck og Staðardagskrá 21

Á undanförnum árum hafa mörg sveitarfélög á Íslandi unnið að úrbótum í umhverfismálum með vinnu að Staðardagskrá 21. Í Staðardagskrárvinnu er sveitarfélögunum alveg í sjálfsvald sett hvaða áherslum er fylgt og hversu hratt breytingar eru gerðar. Þetta getur verið kostur fyrir sveitarfélögin en veldur því m.a. að sveitarfélög standa sig mjög misvel. Þá er lítil sem engin eftirfylgni eða eftirlit í Staðardagskrárferlinu og skapar hún því takmörkuð tækifæri til markaðsetningar. Þrátt fyrir það hefur Staðardagskrárvinna stuðlað að mörgum gríðarlega jákvæðum framförum í umhverfismálum á Íslandi og annars staðar. Nánari upplýsingar um Staðardagskrá 21 má finna á http://www.samband.is/dagskra21/.

EarthCheck vottunarkerfið byggir á Staðardagskrá 21 en er ólíkt henni meðal annars að því leiti að um er að ræða óháða umhverfisvottun þriðja aðila. Vottunarkerfið felur í sér að samtökin setja viðmið fyrir samfélagið í heild og því er í raun um trúverðugri leið til umhverfisúrbóta að ræða en felst í til dæmis Staðardagskrárvinnu og vottun samkvæmt ISO 14001 staðli.

 Ótvíræðir kostir felast í því að byggja upp sjálfbæra lifs- og starfshætti með vottun óháðs þriðja aðila:

Trúverðugleiki: Árangur er metinn af óháðum aðila og þarf að standast skilgreinda staðla og viðmið.

Aðhald og eftirfylgni: Úttekt vottunaraðila tryggir eftirfylgni og haldbærar upplýsingar um frammistöðu og kerfið því líklegra til að skila raunverulegum skrefum í átt að sjálfbærni.

Gæðastjórnun: Þáttaka í vottunarferli eykur gegnsæi upplýsinga, bætir verk- og pappírsferla og gefur betra yfirlit yfir notkun náttúruauðlinda. Hún stuðlar því að bættri gæðastjórnun.

Markaðs- og kynningartæki: Umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila með þekktu umhverfismerki felur í sér ný og fjölbreytt tækifæri til landkynningar og markaðssetningar, sér í lagi fyrir ferðaþjónustu og framleiðslugreinar.

Ávinningur af þátttöku

Hvers vegna ættu sveitarfélög yfirleitt að huga að úrbótum í umhverfismálum? Ástæðum þess má skipta gróflega í þrennt:

1.   Vegna umhverfisins sjálfs. Maðurinn hefur með athöfnum sínum mjög víða skaðað umhverfi sitt til lengri eða skemmri tíma. Vistkerfi eru víða undirstaða menningar mannsins og grundvöllur þeirra lífsgæða sem við nú njótum. Ef áfram verður haldið án þess að umgengni við umhverfi batni lítur hins vegar út fyrir að ýmis vistkerfi gætu verulega látið á sjá eða jafnvel hrunið t.d. vegna gróðurhúsaáhrifa, mengunar og eyðingar náttúrulegra búsvæða.

2.   Til að spara í rekstri. Það að vera umhverfisvænn er í raun það sama og að fara sparlega með auðlindir. Þegar litið er til lengri tíma (og oft einnig til styttri tíma) jafngildir það að vera umhverfisvænn því að spara í rekstri.

3.   Til markaðssetningar. Sífellt fleiri ferðamenn leggja mikið upp úr því að ferðaþjónustuaðilar gangi vel um umhverfið. Vottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi er því mikið tækifæri til markaðssetningar í ferðaþjónustu en einnig mögulega í öðrum greinum, s.s. sjávarútvegi.

Að hljóta EarthCheck umhverfisvottun

Umsækjendur um umhverfisvottun EarthCheck ganga í gegnum þríþætti ferli:

 1. Skráning í vottunarkerfi EarthCheck. Undirbúningur að næsta ferli, stefnumótun og fleira.
 2. Mælingar á tölulegum vísum og gerð framkvæmdaáætlunar. Eftir mælingar í eitt ár eru niðurstöður sendar til vottunarsamtakanna, sem meta hvort lágmarksviðmiðum hafi verið mætt. Ef svo er fer verkefnið í þriðja þrepið.
 3. Vottun frá EarthCheck. Viðurkenndur óháður vottunaraðili tekur starfsemina út og kannar hvort stöðlum EarthCheck sé mætt og hvort framkvæmdaáætlun sé uppfyllt. Sé svo, er veitt vottun til eins árs í senn. Vottun felur ekki í sér að viðkomandi aðili hafi náð fullkomnun heldur að hann hafi uppfyllt grunnviðmið og skuldbindi sig til að vinna að stöðugum úrbótum.

Sjálfbærnivísar

Árlega skilar samfélagið mælanlegum upplýsingum um frammistöðu sína á eftirfarandi sviðum og skal stefnt að stöðugum úrbótum, sérstaklega þar sem frammistaðan er ekki metin framúrskarandi.

 • Losun gróðurhúsalofttegunda
 • Orkunýting, orkusparnaður og stjórnun.
 • Stjórnun ferskvatnsauðlinda.
 • Verndun og stjórn vistkerfa.
 • Stjórnun félagslegra og menningarlegra áhrifa ferðaþjónustunnar.
 • Skipulag og þróun svæða undir ferðaþjónustu.
 • Félagshagfræðilegur ávinningur svæðisins af ferðaþjónustu.
 • Verndun loftgæða og stjórnun hávaða.
 • Stjórnun fráveitumála og ofanvatns.
 • Lágmörkun úrgangs, endurnýting og endurvinnsla.
 • Geymsla og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu.
 • Verndun menningarminja.

Auk þessara fyrirfram ákveðnu vísa getur hvert samfélag búið sér til sína eigin vísa sem fylgst verður með. Sem dæmi má nefna að á Snæfellsnesi er mæld sú endurnýjanlega orka sem framleidd er á svæðinu og sama er að segja um endurnýjanlega orku sem neytt er á svæðinu. Hér má fræðast betur um sjálfbærnivísana á Snæfellsnesi.

02/08/2012