Síðastliðinn fimmtudag kom 30 manna hópur frá Færeyjum í heimsókn á Snæfellsnes til að kynna sér samstarf sveitarfélaganna um Green Globe vottunarferlið. Í Stykkishólmi fékk hópurinn kynningu á verkefninu. Heimsóknin var liður í tveggja daga Íslandsferð hópsins.

Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, tók á móti þeim í Vatnasafninu en síðan skoðuðu þeir höfnina sem flaggar nú Bláfánanum fimmta árið í röð. Þórunn Sigþórsdóttir umhverfisfulltrúi fræddi þá um samstarf sveitarfélaganna og stöðu þeirra í vottunarferli Green Globe. Í dagslok var svo slegið á léttari strengi og farin kynnisferð um bæinn þar sem Eyþór Benediktsson sagði frá sögu Stykkishólms. Endapunkturinn var svo ljúffengur kvöldverður á Narfeyrarstofu.

Auk heimsóknarinnar í Stykkishólm kynnti færeyski hópurinn sér m.a. meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu, vistvænan leikskóla á Kjalarnesi, Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 í Borgarnesi og vistvænan grunnskóla á Lýsuhóli.

Áhugi Færeyinga á Staðardagskrá 21 er mjög mikill ef marka má góða þátttöku í ferðinni. Nánari upplýsingar um Staðardagskrárstarfið í Færeyjum er að finna á vefsíðum „Føroya Kommunufelag,” nánar tiltekið á slóðinni http://www.fkf.fo/agenda.asp?Cmd=31.

Deila