Myndir: Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri, Jón Þórir Frantzson framkvæmdastjóri Íslenska gámafélagsins og Gretar D. Pálsson forseti bæjarstjórnar. Guðmundur Andrésson tók myndirnar.

Í gær var undirritaður samningur á milli Stykkishólmsbæjar og Íslenska gámafélagsins um flokkun sorps og moltugerð í sveitarfélaginu. Með þessum samningi hefur Stykkishólmsbær fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi tekið skrefið til fulls í flokkun sorps. Mun flokkun á sorpi og moltugerð lífræns úrgangs frá öllum heimilum bæjarfélagsins hefjast í janúar á næsta ári.

Íslenska gámafélagið mun sjá um framkvæmd verkefnisins og fræðslu til bæjarbúa. Þeir sem ekki komust á fræðslufundinn í gærkveldi þurfa ekki að örvænta því starfsmenn Íslenska gámafélagsins koma til með að ganga í hvert hús í bænum og fara yfir málin með bæjarbúum og jafnframt aðstoða við að finna lausnir og svör á þeim vandamálum og spurningum sem upp kunna að koma t.d. eins og hvar sé best að staðsetja tunnurnar þrjár. Til viðbótar við gráu tunnuna sem fyrir er fær hvert heimili Grænu tunnuna sem ætluð er fyrir endurvinnanlegan úrgang svo sem pappa, pappír, fernur, plast og minni málmhluti. Innihald grænu tunnunnar verður síðan flokkað frekar og sent til endurvinnslu. Einnig fær hvert heimili brúna tunnu undir lífrænan úrgang heimilisins. Íslenska Gámafélagið mun síðan losa brúnu tunnurnar og umbreyta lífræna úrganginum í næringarríka moltu. Moltan verður síðan notuð í bæjarfélaginu við uppgræðslu og gróðursetningu.

Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar að minnsta kosti um 60%.

Frétt af www.stykkisholmur.is/.

Deila