Föstudaginn 29. maí var fjórði Grænfáninn dreginn að húni í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning fyrir störf að umhverfismálum og umhverfisfræðslu í skólum. Landvernd hefur umsjón með verkefninu á Íslandi.

Þann sama dag var hefðbundin vorsýning á verkum nemenda og bar til nýjunga að á eyju og í lóni, á skólalóð skólans, var sýning á afurðum sprotafyrirtækis, sem unnið var að í vetur, en þar mátti sjá alls kyns furðuverur, fána og sokkið skip, allt gert úr endurnýttum efnum. Töfrasprotarnir sjálfir voru til sýnis í skólastofu ásamt munum sem nemendur höfðu gert á skólaárinu. Einnig voru sýndar fjórar stuttmyndir nemenda en í þeim var vísað til þekktra ævintýra.

Skólinn hefur unnið markvisst í umhverfismálum og hófst sú vinna árið 2001 með þátttöku í Staðardagskrá 21. Grænfánaverkefnið tók fljótlega við, en skólinn var í hópi 12 fyrstu skóla sem hófu verkefnið á Íslandi. Fyrsta fána var flaggað vorið 2003.

Þegar skrefin sjö til Grænfána hafa verið stigin og markmið uppfyllt er nýjum fána flaggað og ný markmið sett til næstu tveggja ára.

Frétt af: http://www.snb.is.

Fáninn dreginn að hún

Deila