Bláfáninn var dreginn að húni í annað sinn við Arnarstapahöfn mánudaginn 29. júní, höfnin flaggaði Bláfána í fyrsta sinn á síðasta ári en árið 2003 var fyrsta árið sem höfn á Íslandi fékk Bláfána afhentann.

Bláfáninn er alþjóðleg vottun sem veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda fyrir framúrskarandi vistvæna umgengni og meðhöndlun úrgangs. Sérstakur stýrihópur stjórnar verkefninu en hlutverk hans er að veita faglega leiðsögn og koma á tengslum við viðkomandi aðila. Samhliða stýrihópnum er starfandi dómnefnd sem hefur með höndum að vinna úr umsóknum og sinna eftirliti með þeim aðilum sem flagga Bláfánanum í samstarfi við skrifstofu FEE sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn.

Hér á landi flagga fjórar hafnir Bláfánanum auk Arnarstapahafnar, baðstrendurnar Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík hafa auk þess tekið þátt í verkefninu í sex sumur. Á heimsvísu flagga um 3.200 strendur og hafnir Bláfánanum en auk smábátahafna og baðstranda eiga smábátaeigendur og hvalaskoðunarskip þess kost að flagga sérstakri Bláfánaveifu eftir að hafa undirritað yfirlýsingu um að þeir fylgi vistvænum umgengnisreglum Bláfánans.

Bláfáninn er eitt af fjölmörgum verkefnum Foundation for Environmental Education og hefur útbreiðsla hans aukist ár frá ári frá innleiðingu hans árið 1987. Úthlutun Bláfánans hefur stuðlað að bættri umgengni við hafið og virkað sem hvatning fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu víða um heim.

Frá Landvernd kom Sigrún Pálsdóttir en hún er formaður stýrihóps um Bláfánann, Sigrún afhenti Kristjönu Hermannsdóttur forseta bæjarstjórnar Snæfellsbæjar fánann en þetta var fyrsta embættisverk Kristjönu.

Ljósmynd: Sigurjón Bjarnason
Frétt úr Jökli 2.7.2009.

Deila