Frá árinu 2008 hefur Snæfellsnes verið umhverfisvottað samfélag. Eins og á svo mörgum sviðum er vottunarmálum þannig háttað að fullkomnun er aldrei náð en miklu skiptir að sífellt sé unnið að úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum á svæðinu.
Þessi vinna sveitarfélaganna er árlega tekin út og metin af óháðum aðila með endurnýjun á vottun í huga, auk þess sem hugmyndir um frekari úrbætur eru skoðaðar.
Vottunin fékkst síðast endurnýjuð fyrir ári og nú var enn kominn tími á úttekt. Í gær og í dag, 12. og 13. desember, dvaldi Haukur Haraldsson, gæðastjóri Almennu verkfræðistofunnar, á svæðinu og framkvæmdi umrædda úttekt fyrir hönd EarthCheck vottunarsamtakanna.
Hann heimsótti, ásamt Theódóru Matthíasdóttur, umhverfisfulltrúa Snæfellsness, fyrirtæki og stofnanir á Snæfellsnesi. Í heimsóknum sínum hitti Haukur meðal annars stjórendur sveitarfélaganna ásamt því að kynnast umhverfisstarfinu sem fram fer í Lýsuhólsskóla og vakti það sérstaka lukku hve gott starf er unnið þar. Auk þess fór hann yfir gögn sveitarfélaganna um auðlindanýtingu, umhverfisstjórnunarhandbók og fleira með aðstoð umhverfisfulltrúa og Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings hjá Environice.
Á næstu dögum mun Haukur skila skýrslu til vottunarsamtakanna, þar sem fram kemur hvort sveitarfélögin hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir endurnýjun vottunar. Spennandi verður að heyra hvort sveitarfélögin á svæðinu standist úttektina og verði þannig áfram í forystu íslenskra sveitarfélaga í umhverfismálum.