Það er ekki amalegt að hefja nýtt ár á gleðilegum fréttum af endurnýjaðri umhverfisvottun Snæfellsness. Yfir hátíðirnar endurnýjuðu vottunarsamtök EarthCheck vottun á starfsemi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi fimmta árið í röð. Þar sem þetta er í fimmta skiptið sem vottun hlýst státa sveitarfélögin sig nú af svokallaðri gullvottun EarthCheck.
Ekki má þó gleyma sér í gleðivímu en láta skynsemina ráða og minnast þess að alltaf má gera betur. Framundan eru ýmis spennandi verkefni sem ætlað er að bæta umhverfi og samfélag í samræmi við markmið vottunarinnar. Nánar verður fjallað um þau á næstu misserum.
Í tilefni nýs árs og endurnýjaðrar vottunar hvet ég íbúa Snæfellsness til þess að styðja við vottunarvinnu sveitarfélaganna með því að setja sér að minnsta kosti eitt umhverfistengt áramótaheit því margt smátt gerir eitt stórt.
Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)