Á morgun, þriðjudaginn 2. júlí kl. 13:00, munu fulltrúar frá Landvernd afhenda smábátahöfninni í  Stykkishólmi  Bláfánann í 11. sinn.  Athöfnin fer fram við Hafnarvogina og eru íbúar og gestir Stykkishólms að sjálfsögðu velkomnir.

Bláfáninn var fyrst afhendur Stykkishólmshöfn þann 13. júní 2003. Smábátahöfnin í Stykkishólmi var fyrsta höfnin til að hljóta þessa alþjóðlegu viðurkenningu hér á landi.

Bláfáninn er alþjóðlegt merki fyrir hafnir sem uppfylla ströng skilyrði í umhverfis- og öryggismálum og hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Smábátahöfnum er veittur Bláfáninn hafi þær lagt sig fram um að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu í höfninni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þessi viðleitni á að treysta verndun umhverfis hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á og vera öllum þeim sem nota eða heimsækja höfnina til hagsbóta.

Það eru alþjóðasamtökin Foundation for Enviromental Education, sem Landvernd á aðild að, sem standa að baki þessu merki. Stykkishólmshöfn hefur hlotið þessa viðurkenningu og flaggað Bláfánanum á hverju ári síðan 2003.

Deila