Snæfellsnes er einn af 100 grænustu áfangastöðum heims samkvæmt nýbirtum lista sem opinberaður var í gær, 10. desember.

Um er að ræða verkefni sem kallað er „Global Top 100“. Þar er tekið saman yfirlit yfir þá hundrað staði í heiminum sem þykja skara fram úr á sviði umhverfismála.  Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra aðila sem hafa sérhæft sig í rannsóknum og markaðssetningu grænna áfangastaða og nefnast samtökin „Green Destinations“. Tilgangurinn er að veita áfangastöðum, sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi, viðurkenningu og auðvelda um leið kröfuhörðum ferðamönnum val um áfangastaði.

Listinn var fenginn þannig að kallað var eftir tilnefningum í gegnum samfélagsmiðla. Svo tók við þrjátíu manna dómnefnd skipuð sérfræðingum í ferðamálum og sjálfbærni, sem gaf einkunnir fyrir fjölmarga þætti, þar á meðal náttúru, umhverfi, náttúruvernd, menningararf og umhverfisvottun.

Áfangastöðunum 100 er ekki raðað í neina sérstaka röð en á heimasíðu verkefnisins má raða áfangastöðunum niður á mismunandi vegu eftir einkunnum fyrir hvern þátt.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Snæfellsnes og staðfesting á því að sú vinna sem hér er unnin er metin að verðleikum, sem mun vonandi skila sér samfélagsins. Umhverfismál skipta sífellt stærra máli í ferðaþjónustu og ferðamenn gera sífellt strangari kröfur til áfangastaða.

Talsmenn „Global Top 100“ hvetja ferðamenn til að velja áfangastaði sem vinna að raunverulegum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum. En viðurkennd vottun óháðs aðila, eins og umhverfisvottun Snæfellsness er, veitir einmitt aukinn trúverðugleika hvað það varðar.

Frekari upplýsingar er að finna á www.greendestinations.info.

Deila