Þessa dagana er ritið Skref í rétta átt á leiðinni á öll heimili á Snæfellsnesi en í því er fjallað um umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og hverju hún hefur skilað. Fyrir útgáfu ritsins standa Framkvæmdaráð Snæfellsness og Náttúrustofa Vesturlands en útgáfan var styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í ritinu er meira en áratugar saga umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness rakin og verkefnið útskýrt. Um leið er reynt að reynt að svara þeim spurningum sem forsvarsmenn verkefnisins hafa fengið í gegnum tíðina.

Með ritinu fylgir margnota innkaupapoki merktur umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness og er hann gjöf frá sveitarfélögunum á Snæfellsnesi. Á honum er að finna slagorðin hugsum áður en við kaupum og hugsum áður en við hendum. Íbúar eru hvattir til þess að tileinka sér þessi einkunnarorð um leið og skorað er á alla að hætta að nota plastburðarpoka og leggja með því grunn að plastpokalausu Snæfellsnesi.

Ritinu og pokanum var ekki dreift á heimili þar sem fjölpóstur hefur verið afþakkaður. Því fólki er velkomið að láta vita hjá sínu sveitarfélagi.

Deila