Laugardaginn 30. mars næstkomandi verður hinn árlegi og alþjóðlegi umhverfisviðburður Earth Hour, eða Jarðarstund, haldinn í 12. skipti þar sem milljónir jarðarbúa koma saman til þess að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Að því tilefni munu sveitarfélögin á Snæfellsnesi, í samstarfi við RARIK, taka þátt með því að slökkva á götuljósum klukkan 20:30-21:30 sem og ljós á stofnunum sínum. Þetta er í þriðja sinn sem sveitarfélögin taka þátt og hefur viðburðurinn vakið lukku meðal íbúa og gesta. Einnig munu nokkrir veitinga- og samkomustaðir á Snæfellsnesi bjóða upp á myrkvaða stemningu í tilefni Jarðarstundar sem tilvalið væri að nýta sér.

Jarðarstund gefur okkur tækifæri til að njóta samverustundar með fólkinu í kringum okkur sem og að huga að loftslagsbreytingum af mannavöldum. Geymum venjur nútímans – leggjum snjallsímann frá okkur, slökkvum á sjónvarpinu og á ljósum, jafnvel þvottavélinni, og leggjum áherslu á það sem færir okkur hamingju og heilbrigt líf. Heilbrigðir og hamingjusamir íbúar eru mikilvæg auðlind fyrir sjálfbært samfélag. Ein jarðarstund er stuttur tími, en þann tíma skulum við gefa okkur til að vera jarðbundin og njóta þess sem við höfum.

Deila