Eyjan Sao Jorge

Azoreyjar er eyjaklasi sem samanstendur af níu eyjum og tilheyrir Portúgal, en nýtur sjálfstjórnar. Eyjarnar liggja á Mið-Atlantshafshryggnum líkt og Ísland og eiga svæðin tvö margt sameiginlegt jarðfræðilega. Virk eldfjöll, ölkelduvatn, jarðhitavirkni, svartar strendur, hraunbreiður og stuðlaberg eru meðal einkenna sem má sjá á eyjunum og Íslandi. Staðsetning við miðbaug hefur hins vegar mjög mikil áhrif á gróður, dýralíf og veðurfar sem gefa allt aðra upplifun á svæðunum tveimur.

Eyjan Sao Miguel

 

Líkt og á Íslandi er mikill uppgangur í ferðaþjónustu á Azoreyjum og straumur ferðamanna hefur aukist hratt síðastliðin fimm ár eða svo. Öflugar flugsamgöngur síðastliðin ár spila þar stóran þátt, en Azoreyjar eru um 1.500 km frá Lissabon og 3.800 km frá Boston. Yfirvöld Azoreyja, með viljann að vopni, ætla að komast til móts við aukinn straum ferðamanna með innleiðingu sjálfbærni í þeim tilgangi að halda efnahag, samfélagi og umhverfi í jafnvægi. Þar er mikil vinna framundan, en þegar öllu er á botni hvolft er þetta mikilvægt verkefni sem þarf að takast á við af skynsemi og gagnsæi. Azoreyjar eru að stíga sín fyrstu skref í EarthCheck ferlinu og með bættri frammistöðu stefna þau á að fá umhverfisvottun fyrir allar eyjarnar níu.

Pallborðsumræður gestafyrirlesara og ráðamanna

Guðrúnu Magneu, verkefnastjóra EarthCheck umhverfisvottunar Snæfellsness var boðið til Azoreyja af þarlendum yfirvöldum til þess að kynna reynslu og árangur Snæfellsness í sjálfbærnimarkmiðum sínum og EarthCheck verkefninu frá síðustu aldamótum. Kynningin fór fram á fyrsta árlega svæðisfundi eyjaklasans, 11.-14. apríl, sem markaði upphaf á markvissu samstarfi aðila í einkageiranum og opinberum geira við að innleiða sjálfbærnimarkmið í ferðaþjónustu.

 

Tvíburavötnin á Sao Miguel

Þátttakendur ráðstefnunnar voru forvitnir að vita hvernig okkur hefur gengið að taka á móti auknum fjölda ferðamanna, t.d. hvort slæmar afleiðingar væru af því að fjöldi fólks sækir áningastaði á Snæfellsnesi. Sem betur fer höfum við náð að vinna að endurbótum við áningastaði hér á Snæfellsnesi og erum enn að. Þar að leiðandi hefur álag ekki verið eins mikið og það gæti hafa verið, en að sjálfsögðu eru verkefni framundan til að vernda náttúru og ímynd svæðisins. Aukið samstarf aðila á Snæfellsnesi úr ýmsum greinum vakti einnig athygli. Framfarir í sjálfbærnimarkmiðum t.d. stjórnun úrgangs eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, næst ekki öðruvísi en með öflugu samstarfi við alla hagsmunaaðila svæðisins. Því er mikilvægt að líta til samfélagslegra þátta til þess að ná árangri í umhverfismálum. Þar hefur okkur gengið vel, sérstaklega síðastliðinn áratug, en við eigum enn verkefni fyrir höndum.

Eyjan Sao Miguel

Samstarf Azoreyja og Snæfellsness mun halda áfram á næstu misserum. Við höfum ýmislegt að læra hvort af öðru og það er alltaf gott að fá innsýn í aðferðir annarra samfélaga. Mikill heiður var að fá að kynna mikilvægt verkefni líkt og umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness fyrir ráðamönnum, íbúum og rekstraraðilum í 310 þúsund manna byggð. Að veita veita innblástur að umhverfisvænni lifnaðarháttum samfélaga er í sjálfu sér mikill árangur í umhverfismálum. Ekki einungis erum við að vinna í okkar eigin sjálfbærnimarkmiðum, heldur einnig stuðla að slíkum markmiðum annarsstaðar í heiminum.

Deila