Hið árlega vottunarferli vegna umhverfisvottunar EarthCheck er umfangsmikið og ekki án áskorana, en það sem skiptir miklu máli er að sjálfbærnimarkmið og aðgerðir í samræmi við þau séu innlimuð í starfsemina og að flestir hagaðilar á svæðinu vinni saman með framtíð umhverfis og samfélags að leiðarljósi. Vöktun á auðlindanotkun, úrgangslosun og samfélagslegri stöðu, t.d. atvinnuleysi, íbúafjölda eða fjölda ferðafólks eru meðal þeirra atriða sem umhverfisvottunarverkefni sveitarfélaganna heldur utan um. Einnig eru önnur atriði metin sem stuðla að sjálfbærri þróun, t.d aðgerðir gegn mengun og ágengum tegundum og gagnsæ samskipti við íbúa.

Úttektin

Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem þarf að uppfylla aukast með ári hverju. Hluti af úttektinni felur í sér að innviðir sveitarfélaganna eru teknir út, en aðeins er hægt að skoða hluta þeirra í hverri úttekt. Í nóvember síðastliðinn var gerð tveggja daga úttekt á starfsemi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, þar sem gögn fyrir árið 2021 voru metin og íþróttamannvirki, áhaldahús og gámasvæði heimsótt. Í úttektinni voru gerðar nokkrar athugasemdir og kröfur um úrbætur og má í því samhengi nefna mengunarvarnir og skilvirkar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem dæmi. Því eiga sveitarfélögin verkefni fyrir höndum til að fá endanlega umhverfisvottun og halda góðu verki áfram.

Úttektaraðilar kanna aðstöðu á gámasvæði, GMM
Gögn yfirfarin og sannreynd, GMM
Ragnhildur, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins kynnir starfið á Snæfellsnesi, GMM

Úttektin leiddi líka í ljós að margt er mjög vel gert. Þar þótti úttektaraðilum það samstarf sem fram fer hér á Snæfellsnesi standa upp úr; virkni Svæðisgarðsins Snæfellsness og fyrirtækja, einstaklinga og félagssamtaka er framúrskarandi og svæðisskipulagið er góður leiðarvísir að sjálfbærara samfélagi. Einnig þótti úttektaraðila að verkefninu væri mikill styrkur af því að verkefnastjóri umhverfisvottunarverkefnisins skyldi heyra undir Náttúrustofu Vesturlands, þar sem sérfræðiþekking er fyrir hendi varðandi umhverfismál, náttúruvernd og rannsóknir.

Þátttaka íbúa mikilvæg

Íbúar eru hvattir til þess að hafa samband ef þeir hafa hugmyndir og athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál, sem snerta aðkomu sveitarfélaganna að ferðaþjónustu eða óska eftir frekari upplýsingum. Fyrirtækjum, stofnunum og samtökum er velkomið að fá kynningu á verkefninu, sem jafnvel væri sniðin að ákveðnu sviði innan umhverfis- og samfélagsmála. Einnig bendum við á heimasíðu okkar www.nesvottun.is og síðu Umhverfisvottunar Snæfellsness á samfélagsmiðlum.

Deila