Nýverið hlaut Snæfellsnes master umhverfisvottun EarthCheck fyrir áfangastaði. Er þetta 15. vottunin frá því að framtakssamir íbúar, hagsmunaaðilar og sveitarfélög hófu þessa vegferð í byrjun 21. aldarinnar. Árlega metur óháður sérfræðingur hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar, en kröfurnar sem þarf að uppfylla aukast með ári hverju og þarf yfirleitt að fara í úrbætur. Master vottun fæst einungis ef áfangastaður hefur verið þátttakandi í EarthCheck umhverfisvottunarverkefninu í 15 ár eða lengur.

Titillinn er viðurkenning á skuldbindingu áfangastaðarins til að stjórna og bæta umhverfis- og samfélagslega stöðu sína og sameiginlega viðleitni til að vinna að sjálfbærum árangri. Vottunin útvegar stoðir til að mæla og bæta frammistöðu í umhverfis,- menningar,- samfélags- og efnahagsmálum, með áherslu á stefnumótun og aðgerðaráætlanir, og er viðurkennd af Alþjóða ferðamálasamtökum Sameinuðu þjóðanna (UNWTO). Aðrir áfangastaðir með umhverfisvottun EarthCheck eru Umeå, Azoreyjar og Dublin sem hefur nýlega gengið til liðs við EarthCheck.

Með þessu verkefni er verið að taka á ýmsum málum sem stuðla að sjálfbærni. Meðal atriða sem eru metin eru aðgerðir gegn mengun og ágengum tegundum, úrgangsmál, framtaksemi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, gagnsæ samskipti við íbúa og stuðningur við lýðheilsu og menningu. Vottunarferlið er árlegt og ekki án áskorana, en það sem skiptir miklu máli er að sjálfbærnimarkmið og aðgerðir í samræmi við þau séu innlimuð í starfsemina og að flestir hagaðilar á svæðinu vinni saman með framtíð umhverfis og samfélags að leiðarljósi. Vöktun á auðlindanotkun, úrgangslosun og samfélagslegri stöðu, t.d. atvinnuleysi, íbúafjölda eða fjölda ferðafólks eru meðal þeirra atriða sem umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness heldur utan um.

Þrátt fyrir að vera lítið samfélag á heimsmælikvarða erum við í sterkri stöðu til að vera fyrirmynd fyrir önnur samfélög. Það höfum við séð í gegnum ýmis samstarfsverkefni sem Snæfellsnes hefur tekið þátt í í gegnum árin, bæði erlendu og innlendu, og öðrum samskiptum við samfélög, stór og smá sem hafa leitað leiða til að innlima sjálfbærni í starfsemi sína. Við, Snæfellingar, höfum sæti við borðið og þátttaka í umhverfisvottunarverkefninu er fordæmisgefandi og alveg jafn mikilvægt og að stuðla að náttúruvernd og aðlögunaraðgerðum vegna loftslagsbreytinga.

Til hamingju Snæfellingar!

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Deila