Græna teymið
Græna teymið starfar að því að styðja við sjálfbærni á Snæfellsnesi. Það samanstendur af fólki sem vinnur markvisst að verkefnum tengdum umhverfi, samfélagi og sjálfbærri þróun, með áherslu á að ná fram raunverulegum breytingum og stuðla að jákvæðum áhrifum í sveitarfélögunum.
Græna teymi umhverfisvottunarverkefnisins
Græna teymið er mikilvægur hlekkur í umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness og starfar samkvæmt leiðbeiningum EarthCheck. Teymið er hugsað sem vettvangur þar sem stjórnendur og starfsmenn úr ólíkum geirum geta unnið saman í óformlegu og hvetjandi umhverfi. Þar gefst tækifæri til að miðla hugmyndum, ræða áskoranir og finna leiðir til stöðugra umbóta í þágu sjálfbærni.
Hlutverk græna teymisins felst í því að veita verkefnastjóra stuðning, taka þátt í hugmyndavinnu og aðstoða við ýmis verkefni. Meðlimir geta lagt til verkefni sem tengjast þeirra eigin sveitarfélagi, komið á framfæri sjónarmiðum íbúa og hvatt til þátttöku í viðburðum eins og Stóra Plokkdeginum. Þeir geta einnig veitt aðstoð við gerð áhættumats og framkvæmdaáætlunar, eða við stefnumótun.
Á fundum teymisins er farið yfir niðurstöður úttektar og sjálfsmats, rætt um leiðir til úrbóta og tengingu við þarfir íbúa, til dæmis í fráveitumálum, sorphirðu eða upplýsingamiðlun. Fundirnir eru jafnframt vettvangur fyrir hugmyndavinnu og samræður um framvindu verkefna og önnur samfélags- og umhverfisverkefni.
Græna teymið er þannig lykilverkfæri til að byggja brú milli stefnumótunar og daglegs lífs, efla vitund íbúa og styðja við sjálfbærni á Snæfellsnesi í víðum skilningi.
Meðlimir græna teymisins
Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness, er fædd og uppalin á Snæfellsnesi. Guðrún útskrifaðist sem stúdent úr Fjölbrautaskóla Snæfellinga, er með BA próf í mannfræði (2013) frá Háskóla Íslands og MA próf í þróunarfræðum og alþjóðasamskiptum (2015) frá Aalborg Universitet. Guðrún starfar fyrir Byggðasamlag Snæfellinga og hefur umsjón með framkvæmd verkefnisins, aflar upplýsingum um auðlindanotkun og gögn fyrir árlega úttekt vegna EarthCheck vottunar, veitir fræðslu og ráðgjöf um verkefnið og umhverfismál, á í samskiptum við sveitarfélög, stofnanir og hagsmunaaðila. Hennar aðalmarkmið er að stuðla að úrbótum á vottunarkerfinu og vinna að framförum í umhverfismálum sveitarfélaganna.
Nanna Guðmundsdóttir er forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi. Hún situr í umhverfis- og náttúruverndarnefnd Sveitarfélagsins Stykkishólms. Hún brennur fyrir því að hver og einn geri sitt besta og ekki síst stórfyrirtæki.
Eva Dögg Einarsdóttir er yfirlandvörður hjá Snæfellsjökulsþjóðgarði. Hún hefur mikinn áhuga á náttúruvernd og umhverfismálum. Sjálfbærni er henni líka hugleikin.
Sara Hjörleifsdóttir er veitingakona á Sjávarpakkhúsinu, Stykkishólmi. Sara leggur mikla áherslu á að hugsa til framtíðar í umhverfismálum og taka ábyrgð á eigin áhrifum. Hún vinnur að því að draga úr sóun, vernda náttúruna og nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, með sérstaka áherslu á matarsóun og ábyrga neyslu. Hún trúir því að litlar, daglegar ákvarðanir geti haft stór áhrif – hvort sem það er að nýta mat betur, velja vistvænni valkosti eða íhuga áhrif neyslu á umhverfið. Sara telur einnig mikilvægt að fræða og hvetja aðra til að taka þátt í jákvæðum breytingum, því hún trúir því að saman megi ná raunverulegum árangri. Hún er sjálfboðaliði hjá UMF Snæfell og tekur þar þátt í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars hjá körfuknattleiksdeildinni.
Garðar Svansson