Hvað er EarthCheck?
EarthCheck er alþjóðlegt vottunarkerfi sem styður ferðaþjónustu og áfangastaði í sjálfbærri þróun. Með vottuninni geta samfélög, eins og Snæfellsnes, dregið úr umhverfisáhrifum, verndað náttúru og menningararf og boðið ferðamönnum ábyrga upplifun.
Vottun áfangastaða
EarthCheck er alþjóðlegt vottunarkerfi sem styður áfangastaði, eins og Snæfellsnes, við að verða sjálfbærari og taka ábyrgð á umhverfi og samfélagi. Kerfið býður upp á skýra leiðsögn og mælikvarða til að bæta allt frá orkusparnaði og úrgangsstjórnun til verndar náttúruauðlinda og samfélagslegrar ábyrgðar. Með EarthCheck geta sveitarfélög og fyrirtæki fylgst með frammistöðu sinni, séð hvar hægt er að gera betur og sýnt íbúum og gestum að hér er lögð áhersla á sjálfbærni.
Ferlið er ítarlegt og gagnsætt: árlega fer fram úttekt af þriðja aðila sem metur framfarir og frammistöðu gagnvart staðli EarthCheck. Þessi úttekt tryggir áreiðanleika í gögnum, sýnileika í framkvæmd og framsýni í sjálfbærnimálum. Það er þó mikilvægt að skilja að vottunin er ekki stimpill á að allt sé „fullkomið“. Hún er vegferð sem Snæfellsnes hefur sjálft kosið að fara til að styðja við stöðugar framfarir í sjálfbærnimálum, og EarthCheck er tækið sem gerir þetta mögulegt.
Með þessari vottun sýnir Snæfellsnes ekki aðeins vilja til að bæta eigin starfsemi heldur skapar einnig traust hjá gestum og íbúum, sem geta séð að svæðið vinnur markvisst að því að þróast á sjálfbæran hátt. EarthCheck hjálpar því Snæfellsnesi að stefna að því að náttúra, samfélag og atvinnulíf vaxi saman í sátt og ábyrgð.
Lykilsviðin 12
Staðall EarthCheck fyrir áfangastaði tekur á tólf lykilsviðum sem miða að því að bæta sjálfbærni svæðisins. Áfangastaðir sem taka þátt mæla frammistöðu sína með magnbundnum viðmiðum sem byggja á Staðardagskrá 21 og má finna í þriðja skrefi staðalsins.
Staðallinn gerir svæðinu einnig kleift að bæta við eigin mælikvörðum sem endurspegla staðbundnar þarfir og forgangsröðun, til að fylgjast betur með frammistöðu á þeim sviðum sem skipta mestu máli.
1.Orkynýting,- sparnaður og - stjórnun
Orka er grunnurinn að flestum athöfnum mannsins og nauðsynleg til framleiðslu á matvælum, hlutum og hráefnum. Hún fæst úr mörgum áttum, svo sem jarðefnaeldsneyti, jarðhita, vatnsafli, vindi og sólarorku. Orkuvinnsla og notkun hafa mikil áhrif á umhverfið, sérstaklega vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og úrgangs. Aðgerðir sem draga úr orkunotkun og auka skilvirkni eru því lykilatriði til að styðja við sjálfbæra lífshætti.
Á Íslandi kemur mest rafmagn frá innlendum orkulindum, einkum jarðhita og vatnsafli, en jarðefnaeldsneyti er enn mikið notað í samgöngum. Sparnaður í orku hefur því áhrif bæði á umhverfi og fjárhag heimila, fyrirtækja og stofnana. Sveitarfélögin bera ábyrgð á rekstri og þjónustu og verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga ef ekkert er gert.
Leiðir til framfara fela í sér að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, auka nýting endurnýjanlegra orkugjafa, bæta almenningssamgöngur og einangrun húsa, spara rafmagn og heitt vatn, og nýta affallsvatn. Með því að fylgjast markvisst með orkunotkun, m.a. með sjálfbærnivísinum Orkunotkun á mann á ári, geta sveitarfélög sýnt gott fordæmi, stuðlað að minni útblæstri og betri umhverfis- og efnahagslegri stöðu á Snæfellsnesi.
2. Losun gróðurhúsalofttegunda
Loftslagsvá af mannavöldum er eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans. Hún stafar aðallega af losun gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis og ógnað efnahagi, heilsu, öryggi fólks, líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfum. Á Snæfellsnesi kemur mest beint frá samgöngum, notkun vinnuvéla og vissum aðgerðum í ferðaþjónustu, en óbein losun vegna neyslu íbúa er einnig veruleg. Framræst votlend losar mikið koltvísýring og endurheimt þess getur minnkað losun og bætt lífríki.
Áhættan við aðgerðarleysi er augljós: loftslagsbreytingar munu hafa alvarleg áhrif á samfélag og umhverfi, aukin umferð og neysla mun líklega auka losun enn frekar. Mikilvægt er að draga markvisst úr útblæstri, bæði í rekstri sveitarfélaga og í daglegu lífi íbúa.
Leiðir til framfara fela í sér að draga úr notkun ökutækja, auka vistvænar samgöngur, nýta endurnýjanlega orkugjafa, spara orku og heitt vatn, auka hlutfall plöntufæðu og beita sér fyrir kolefnisbindingu með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Sveitarfélögin fylgjast með árangri með vísinum „losun CO2 á mannár“ til að mæla heildarlosun íbúa og gesta og styðja við sjálfbæra þróun svæðisins.
3. Verndun loftgæða og stjórnun hávaða
Athafnir einstaklinga, fyrirtækja og stofnana hafa áhrif á loftgæði og hávaða, sem skipta máli fyrir heilsu og lífsgæði. Léleg loftgæði tengjast aukinni tíðni öndunarfærasjúkdóma og styttri lífslíkum, á meðan hávaði getur valdið streitu og minni vellíðan. Ferskt loft, kyrrð og næði stuðla að hamingju íbúa og góðri upplifun ferðamanna.
Á Snæfellsnesi, sem er strjálbýlt og vindasamt svæði án stóriðnaðar, eru loftgæði yfirleitt góð. Nokkur vandamál koma þó upp á stöku stað, til dæmis vegna lyktar frá fiskverkunarhúsum, og mögulegur uppblástur svifryks á sumum svæðum. Ef ekkert er að gert gæti hávaði aukist við umferðaræðar eða stærri fyrirtæki, og lyktarmengun gæti haft áhrif á lífsgæði íbúa og gesta.
Leiðir til framfara fela í sér orkuskipti í samgöngum, minnkun losunar frá sérhæfðum fyrirtækjum, og skipulagsákvarðanir sem draga úr áhrifum mengunar. Frammistaða sveitarfélaganna á þessu sviði er mæld með þremur sjálfbærnivísum: losun köfnunarefnisoxíða (NOx), brennisteinsoxíða (SOx) og svifryks (PM10) á hektara, metin út frá akstri og umferðartölum á svæðinu.
4. Stjórnun ferskvatnsauðlinda
Vatn er undirstaða alls lífs og nauðsynlegt fyrir öndun, ljóstillífun og efnaskipti lífvera. Þrátt fyrir að vatn þekji 71% yfirborðs jarðar, er aðeins brot af því aðgengilegt sem ferskvatn, og enn minna sem nýtist beint til neyslu. Hreinvatn er því takmörkuð auðlind sem þarf að nota af virðingu, bæði fyrir lífríki og samfélög.
Á Íslandi er vatn almennt nægilegt, en náttúruleg búsvæði hafa orðið fyrir raski, t.d. vegna framræslu votlendis og virkjana. Á Snæfellsnesi er vatn enn aðgengilegt, en vatnsnotkun manna getur haft staðbundin áhrif á lífríki. Að fara sparlega með vatn er því bæði umhverfis- og efnahagslega mikilvægt, þar sem það minnkar álag á leiðslukerfi og viðhaldskostnað.
Leiðir til framfara fela í sér að takmarka vatnsnotkun í stofnunum sveitarfélaga, hvetja íbúa til sparnaðar og innleiða vatnssparandi búnað, svo sem spartakka í salernum og sjálfslökkvandi sturtur. Sveitarfélögin nota til þess sjálfbærnivísana Notkun neysluvatns á mannár og Einkunn fyrir vatnssparnað til að fylgjast með þróun og bæta meðvitund um rétta nýtingu vatns á svæðinu.
5. Stjórnun fráveitumála og yfirborðsvatns
Hreint vatn er dýrmæt auðlind og grundvöllur alls lífs. Áhersla þessa sviðs er að draga úr neikvæðum áhrifum skólps og annarra mengunarefna á grunn- og yfirborðsvatn, svo sem ár, vötn og strandsjó.
Mengun getur komið frá ófullkomnum fráveitum, iðnaði, landbúnaði eða sorpi, og haft áhrif á heilsu fólks, lífríki og lífsgæði. Á Snæfellsnesi er vatn almennt hreint og sjórinn lítið mengaður, en helstu verkefni tengjast fráveitum í þéttbýli og staðbundinni gerlamengun strandsvæða, t.d. vegna fiskverkunar.
Leiðir til framfara eru að bæta sýnatöku og vöktun vatns, fræða íbúa og bæta fráveitumál í þéttbýli. Frammistaða sveitarfélaganna er mæld með sjálfbærnivísanum: Hlutfall vatnssýna sem standast kröfur um hreinleika. Markmiðið er að tryggja gott vatn fyrir íbúa, náttúru og ferðamenn.
6. Verndun og stjórnun vistkerfa
Líffræðileg fjölbreytni er grunnur vistkerfa og mannlegrar velferðar, en eyðing búsvæða og áhrif mannsins hafa leitt til hraðari útdauða tegunda en eðlilegt getur talist. Á Íslandi er tegundafjölbreytni ekki há, en erfðabreytileiki innan tegunda og staðbundin aðlögun gerir vistkerfi verðmæt. Á Snæfellsnesi eru stofnar og vistkerfi með hátt verndargildi, en þau geta orðið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, framræslu votlendis, breytingum á vatnasviðum, beitarþrýstingi og ágengra tegunda.
Áhættan við að aðhafast ekkert felst í frekari hnignun búsvæða og tegunda, sem getur haft áhrif á náttúru, efnahag og samfélag. Verndun svæða og vistkerfa er því lykilatriði, í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi um líffræðilega fjölbreytni.
Leiðir til framfara eru skipulagsmótun, friðun og endurheimt lykilsvæða, stjórnun ágengra tegunda, vöktun beitilanda og aðgerðir vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Sveitarfélög fylgjast með árangri með sjálfbærnivísinum: flatarmál verndaðra svæða vegna innlends lífríkis sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins. Markmiðið er að tryggja líffræðilega fjölbreytni og vernda innlenda tegundir fyrir framtíðina.
7. Skipulags- og byggingarmál
Skipulag landnotkunar er lykilatriði í umhverfismálum, bæði til verndar búsvæðum og til að draga úr áhrifum mengunar. Sveitarfélög hafa úrslitaáhrif með skipulagsáætlunum, útboðsgögnum og leyfisveitingum, auk þess sem mikilvægt er að innleiða mótvægisaðgerðir gegn afleiðingum loftslagsbreytinga, svo sem hækkun sjávarborðs og öfgafullar veðurfar.
Séu skipulag, verkferlar og leiðbeiningar óskýrar eða ekki fyrir hendi, er hætta á að búsvæði og tegundir tapi verði varanleg, auk þess sem samfélag, efnahag og innviðir verða viðkvæmari fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Til að draga úr þessum áhættuþáttum þarf að tryggja að allar skipulagsáætlanir og framkvæmdir byggist á sjálfbærri þróun, með skýrri stefnu um vernd landslags og líffræðilegrar fjölbreytni, og að meta áhrif loftslagsbreytinga á náttúru, innviði og samfélag. Árangi sveitarfélaga á þessu lykilsviði má meðal annars meta með flatarmáli grænna svæða sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins og flatarmáli verndaðra svæða til verndar upprunalegra tegunda.
8. Samgöngur
Samgöngur á Íslandi eru að mestu háðar einkabílum og flugi, þar sem lestarkerfi vantar og almenningssamgöngur eru takmarkaðar. Þetta veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda, sem er einn helsti þátturinn í loftslagsvandamálum landsins, auk framræsts votlendis og brennslu jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi.
Á Snæfellsnesi geta sveitarfélög haft áhrif með því að draga úr losun, endurheimta votlendi, styðja vistvænni samgöngur og hvetja til rafvæðingar bílaflota. Innviðir eins og öruggir hjólastígar og hleðslustöðvar fyrir rafbíla auka möguleika íbúa á að velja vistvænni samgöngumáta. Almenningssamgöngur á svæðinu eru í höndum Strætó, og með bættri þjónustu, kynningu og auknu framboði er hægt að hvetja íbúa og ferðamenn til að nýta þær frekar og draga þannig úr umhverfisáhrifum samgangna.
9. Stjórnun úrgangs á föstu formi
Úrgangur er krefjandi viðfangsefni vegna umhverfisáhrifa, sóunar auðlinda og losunar mengandi efna, svo sem metans úr urðunarstöðum og eiturefna úr ófullkominni sorpbrennslu. Rétt meðhöndlun getur sparað auðlindir, dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og haft jákvæð áhrif á ímynd sveitarfélaga.
Á Snæfellsnesi hefur mikið áunnist í móttöku og endurvinnslu sorps, en sorpmagn getur aukist vegna ferðamannastraums og byggingarframkvæmda. Helstu leiðir til úrbóta eru að draga úr innkaupum og sorpmyndun, velja endurvinnanlegar og efnisminnstar umbúðir, stuðla að minni matarsóun og halda nothæfum hlutum í hringrásinni frekar en að senda þá til urðunar. Sveitarfélögin geta stutt við þetta með fræðslu, innleiðingu Hringrásarhagkerfisins og skipulagi á vettvangi fyrir endurnýtingu. Frammistaða þeirra er mæld með sjálfbærnivísum sem sýna magn úrgangs til urðunar á mann, hlutfall endurvinnslu og notkun umhverfismerktra pappíra við innkaup.
10. Geymsla og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu
Lífvirk efni sem brotna hægt eða illa niður í náttúrunni geta valdið skaða á lífverum, vistkerfum og notendum. Dæmi um slíkt efni á Snæfellsnesi eru varnarefni, hreinsiefni, lífrænir leysar, málning og eldsneyti. Skaðsemi þeirra fer eftir magni og styrk og getur komið fram skyndilega eða tekið langan tíma, jafnvel yfir kynslóðir, t.d. hormónaáhrif varnarefna sem valda ófrjósemi. Sum hreinsiefni innihalda fosfat sem getur leitt til ofauðgunar í ferskvatni og sjó. Þá geta vandamál tengd geymslu eða meðhöndlun leitt til leka og mengunar jarðvegs, grunnvatns og lífríkis. Mikilvægt er að draga úr notkun slíkra efna og velja frekar lífræna og umhverfisvottaða valkosti sem brotna niður í náttúruleg efni.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi stefna að því að hætta losun skaðlegra efna, draga úr varnarefnanotkun og nota fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem vali á trjágróðri sem dregur ekki að sér meindýr og notkun örtrefjaklúta við hreinsun. Frammistaða sveitarfélaganna er mæld með hlutfalli varnarefna sem brotna niður í náttúruleg efni og hlutfalli umhverfisvottaðra hreinsiefna í notkun þeirra.
11. Stjórnun félags- og menningarmála
Samfélagsmál, menningararfur og ferðaþjónusta á Snæfellsnesi tengjast náið náttúru og umhverfi svæðisins. Fjölbreytt atvinnu- og mannlíf, einkum sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta, krefst sjálfbærrar þróunar til að vernda samfélag, menningu og náttúru. Menningararfurinn, eins og þjóðleiðir, rústir og hús, tengir fortíð og nútíð og er ómissandi hluti sjálfbærrar þróunar.
Ferðaþjónustan skapar tekjur og atvinnu, en of mikill ferðamannastraumur getur haft skaðleg áhrif á menningu og náttúru. Sveitarfélög og ferðaþjónustuaðilar þurfa að vinna saman að upplýsingagjöf, fræðslu og eftirfylgni með sjálfbærni. Upplýsingamiðlun, stjórnun á álagsþoli viðkvæmra svæða og vottun ferðaþjónustufyrirtækja eru lykilatriði til að vernda náttúru og menningu.
Frammistaða sveitarfélaganna er metin með þátttöku í umhverfis- og samfélagsverkefnum, hlutfalli vottaðra ferðaþjónustufyrirtækja, atvinnuleysi og glæpatíðni, en upplýsingamiðlun til íbúa og ferðamanna er grunnur sjálfbærrar þróunar á Snæfellsnesi.
12. Stjórnun efnahags
Lykilsviðið tengir umhverfis- og samfélagsmál, menningararf og efnahag á Snæfellsnesi. Sveitarfélögin þurfa að fylgjast með áhrifum efnahagslegra ákvarðana á samfélag og náttúru og tryggja að ferðaþjónusta stuðli að sjálfbærri byggðaþróun, nýsköpun og fjölbreytni, með forgangi á vörum og þjónustu svæðisins. Mikilvægt er að meta áhrif nýrrar atvinnustarfsemi á samfélag, menningu og náttúru og bregðast við sveiflum í fjölda íbúa og gesta. Áhætta fylgir óstýrðri þróun, svo sem ofnýtingu náttúruauðlinda, misræmi milli ímyndar samfélags og viðbragða ferðaþjónustuaðila, eða fækkun gesta.
Samstarf hagsmunaaðila er lykilatriði til að ná fram sjálfbærni, eins og sést í Svæðisgarði Snæfellsnes, sem tengir sveitarfélögin, ferðaþjónustuaðila, búnaðarfélög og önnur samtök. Markmiðið er að nýta náttúru- og menningarauðlindir á sjálfbæran hátt, með virðingu fyrir samfélagi, umhverfi og efnahagi til langs tíma.
