Lykilsvið og sjálfbærnivísar

Lykilsvið og sjálfbærnivísar

Innan svæðastaðals EarthCheck í vottunarkerfinu hafa verið skilgreind 12 lykilsvið og samtals 16 sjálfbærniskylduvísar innan lykilsviðanna en aðilar geta bætt við valkvæðum vísum eins og við á. Gögnum vegna sjálfbærnivísanna (Benchmarking tölur) er skilað árlega og reiknar EarthCheck út einkunn frá þeim tölum. Samtökin hafa sett viðmið um lágmarksframmistöðu varðandi hvern sjálfbærnivísi, sem gengið er út frá að um helmingur sveitarfélaga ætti að geta náð. Einnig hafa þau sett annað viðmið um það sem telst vera framúrskarandi frammistaða. Gert er ráð fyrir að einungis um 20% sveitarfélaga geti náð svo góðum árangri.

Á Snæfellsnesi hefur verið þróað skráningarkerfi til að vakta auðlindanotkun í sveitarfélögunum fimm m.t.t. lykilsviða EarthCheck. Upplýsingarnar sem þannig fást um hina svokölluðu sjálfbærnivísa segja til um árangur sveitarfélaganna í umhverfis- og félagslegu tilliti. Það að mæla auðlindanotkun á staðlaðan hátt eins og hér er gert, eykur gagnsæi og gefur yfirsýn sem annars væri tæplega fyrir hendi. Þá bættu yfirsýn er m.a. hægt að nýta til að:

  • Bæta umhverfisvernd og ná sjálfbærnimarkmiðum
  • Draga úr kostnaði
  • Uppfylla kröfur stjórnvalda um upplýsingagjöf og framfylgd laga og reglugerða
  • Auðvelda skýrslugjöf um frammistöðu
  • Leggja grunn að óháðu mati utanaðkomandi aðila á frammistöðu
  • Stuðla að vottun og staðfesta ákveðin gæði
  • Bæta ímynd

Lykilsviðin 12 taka mið af ýmsum umhverfisvandamálum sem jarðarbúar standa frammi fyrir í dag og nauðsynlegt er að líta til, sé ætlunin að færa starfsemi í átt að aukinni sjálfbærni. Hafa verður í huga að lykilsviðin og sjálfbærnivísarnir taka mið af alþjóðlegum vandamálum og eiga því í örfáum tilfellum minna erindi við starfsemi sveitarfélaga á Snæfellsnesi en önnur svæði erlendis. Hér á eftir verður farið nánar yfir hvaða lykilsviða og sjálfbærnivísa litið sé til í vottunarverkefninu og þau sett í samhengi við aðstæður hér heima fyrir.

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast upplýsingar um lykilsvið og sjálfbærnivísa, áhættuþætti og leiðir til framfara. Fleiri upplýsingar um lykilsviðin og kröfur EarthCheck er hægt að nálgast í Framkvæmdaáætlun umhverfisvottunarverkefnis sveitarfélaganna.

 

Lykilsvið 1: Losun gróðurhúsalofttegunda

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eitt stærsta umhverfisvandamál dagsins í dag og nánustu framtíðar. Þær eru til komnar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, einkum við brennslu jarðefnaeldsneytis. Í yfirlýsingu frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna kemur fram að loftslagsbreytingar yfirgnæfi öll önnur umhverfisvandamál samtímans og endurspegli stærsta umhverfislega viðfangsefni sem mannkynið þarf að takast á við. Þær ógna efnahag, heilsu og öryggi fólks, líffræðilegri fjölbreytni og mörgum öðrum þáttum. Breytingar á dreifingu og magni úrkomu ógna t.d. matvælaframleiðslu, hækkun á yfirborði sjávar ógnar byggðum og vatnsbólum og hækkun hitastigs mun leiða til dreifingar sjúkdóma sem áður voru bundnir við hitabeltið. Þá munu loftslagsbreytingar hafa áhrif á útbreiðslu og afdrif bæði innlendra og framandi tegunda. Hækkun á styrk koltvísýrings í andrúmslofti hefur nú þegar valdið súrnun sjávar og mun sú þróun vafalaust halda áfram með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lífríki sjávar.

Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum verður með margvíslegum hætti, en veigamest er losun vegna samgangna og framleiðslu á rafmagni með brennslu jarðefnaeldsneytis. Eyðing náttúrulegra búsvæða getur einnig valdið losun á gróðurhúsalofttegundum, t.d. við brennslu eða fellingu upprunalegra skóga og framræslu votlendis.

Á Snæfellsnesi er stærsti hluti beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum (bíla- og skipaumferð) og notkun vinnuvéla, en raf- og hitaveitur losa hlutfallslega lítið. Sundlaugin í Grundarfirði er hituð með olíu og er olía sömuleiðis varaafl fyrir íþróttamannvirki í Ólafsvík og hitaveituna í Stykkishólmi (en notkun hennar er mjög sjaldgæf). Loks má geta þess að umtalsvert magn af gróðurhúsalofttegundum losnar vegna umsvifa fiskiskipaflota svæðisins. Eins og hjá öðrum Jarðarbúum fylgir Snæfellingum einnig heilmikil óbein losun vegna kaupa þeirra á ýmsum vörum, sem valdið hafa mismikilli losun í framleiðslu- og flutningsferli. Síðast en ekki síst ber hér að nefna að rannsóknir hafa sýnt að umtalsverð losun gróðurhúsalofttegunda verður úr framræstu votlendi og á það ekki síður við hér en annars staðar.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru alþjóðlegt viðfangsefni og varla þarf að tíunda frekar hætturnar á heimsvísu sem því fylgja að reyna ekki að fyrirbyggja eða bregðast við þeim. Þó ýmis neikvæð áhrif séu þegar komin fram, er talið að enn sé tími til að sporna við alvarlegustu neikvæðu áhrifunum, en sá tími styttist óðum. Því er nauðsynlegt að vinna að því á öllum sviðum mannlegra umsvifa að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt áhættumati umhverfisvottunarverkefnisins eru að óbreyttu taldar talsverðar líkur á aukinni losun innan svæðisins vegna fjölgunar ferðamanna inn á svæðið, aukinnar bílaeignar og aksturs heimamanna og einhverjar líkur á aukinni olíunotkun í stað ótryggrar raforku. Við þetta má bæta að aukist almenn neysla íbúa verður þar með einnig mjög líklega aukin losun gróðurhúsalofttegunda, en þessi þáttur er illmælanlegur.

Leiðir til framfara

Leita verður leiða til þess að losun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélögum á Snæfellsnesi verði sem minnst. Stefna skal á að losun gróðurhúsalofttegunda á hvert mannár aukist ekki ár frá ári þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna og standist jafnan samanburð við bestu frammistöðu samfélaga skv. skilgreiningu EarthCheck. Þar sem stærsti hluti beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda á Snæfellsnesi kemur til vegna samgangna er vert að hafa í huga að hægt er að draga úr slíkri losun með margvíslegum hætti:

a) Með því að draga almennt úr notkun ökutækja, t.d. með því að samnýta farartæki, ganga eða hjóla,

b) Með því að beita ökutækjum á þann hátt að þau mengi sem minnst, s.s. með vistakstri,

c) Með því að notast við samgöngutæki sem nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti, s.s. raf- og metanbifreiðar.

Sveitarfélög geta lagt sitt að mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að a) standa fyrir fræðslu til starfsmanna og íbúa sveitarfélaganna, b) beita sér fyrir því að ferðaþjónustuaðilar sem flytja ferðamenn inn á Snæfellsnes og innan þess séu meðvitaðir um framlag sitt til losunar gróðurhúsalofttegunda á svæðinu og mögulegar aðferðir til að draga úr þeirri losun, c) farartæki og samgöngur á vegum starfsmanna sveitarfélaganna losi sem minnst af gróðurhúsalofttegundum, d) auðvelda íbúum og gestum að nota farartæki sem nýta umhverfisvænni orkugjafa, t.d. með uppsetningu hraðhleðslu- eða metanstöðva og e) beita sér fyrir bindingu kolefnis með því að stuðla að vistheimt, s.s. endurheimt votlendis ásamt landgræðslu og skógrækt með innlendum tegundum.
Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er mæld sem:

  • Losun koltvísýrings (CO2) á mannár í tonnum, og tekur til heildarlosunar allra íbúa og gesta á Snæfellsnesi en ekki til losunar fiskiskipaflotans.

Engin tök eru á að mæla losun gróðurhúsalofttegunda beint, heldur er hún reiknuð út frá upplýsingum Umferðarstofu um bílaeign á svæðinu og út frá upplýsingum frá rekstraraðilum sundlauga og Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

 

Lykilsvið 2: Orkunýting, -sparnaður og -stjórnun

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Orka er undirstaða flestra athafna mannsins í nútímasamfélagi og ávallt þarf orku á einhverju formi til að búa til hráefni, hluti og matvæli. Sú orka fæst t.d. úr jarðefnaeldsneyti, vatnsföllum, jarðhita, vindi, sjávarföllum, sólinni og með kjarnaklofnun. Orkuvinnsla og orkunotkun íbúa jarðar eru þeir þættir sem valda hvað mestri mengun, sérstaklega notkun jarðefnaeldsneytis, sem á stóran hlut í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda, en einnig er úrgangur kjarnorkuvera hættulegur umhverfinu. Allar aðgerðir til að bæta og stýra orkunýtingu með það að markmiði að minnka orkunotkun eru mikilvægar til að sveigja samfélög í átt til sjálfbærari lífshátta.

Skipta má orkunotkun Íslendinga gróflega í tvo flokka. Annars vegar orka sem fengin er frá innlendum orkulindum, einkum jarðhita og vatnsafli, sem losa hlutfallslega lítið af gróðurhúsalofttegundum í samanburði við brennslu jarðefnaeldsneyta. Nær öll raforka á Íslandi er framleidd með þessu móti. Um 5% hennar er notuð á heimilum en um 80% af stóriðju. Snæfellingar fá nær allir rafmagn af landsneti en heitt vatn til neyslu og húshitunar kemur ýmist beint frá jarðvarma með hitaveitu eða er hitað upp með rafmagni. Hins vegar fá Íslendingar heilmikla orku frá erlendum orkulindum í formi jarðefnaeldsneytis sem flutt er hingað. Þessi orka fer fyrst og fremst í samgöngur (farartæki á borð við bifreiðar, skip og flugvélar) og er enn hátt hlutfall af heildarorkunotkun landans.

Útgjöld vegna orkukaupa eru oft umtalsverður hluti rekstrar heimila, fyrirtækja og stofnana. Sparnaður í heildarnotkun orku getur því haft mikil áhrif, bæði á fjárhag og umhverfi; það síðarnefnda vegna sparnaðar náttúruauðlinda og minni útblásturs. Góð yfirsýn um orkunotkun og leiðir til orkusparnaðar eru mikilvægar í öllum rekstri. Í þessum flokki er sérstaklega mikilvægt, bæði m.t.t. kostnaðar og útblásturs, að spara jarðefnaeldsneyti.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Sveitarfélög hafa mörgum skyldum að gegna í samfélaginu og sinna stórum hluta af nærþjónustu við íbúa. Sá rekstur er kostnaðarsamur og er því mikilvægt að sýna aðhald í rekstri og sóa ekki orku eða öðrum auðlindum. Sveitarfélög og íbúar þeirra munu eins og aðrir íbúar Jarðar verða fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga í framtíðinni ef ekkert verður að gert til að draga úr útblæstri. Í áhættumati fyrir Snæfellsnes er talið mögulegt að notkun jarðefnaeldsneytis aukist vegna aukinnar umferðar farartækja eða af öðrum orsökum og að svæðið leggi þar með meira en áður til hnattrænna loftslagsbreytinga.

Leiðir til framfara

Mikilvægt er að auka vitund um orkusparnað með fræðslu. Fjölmargar leiðir eru þekktar til að draga úr orkunotkun og eru hér aðeins nefndar fáar:

a) Draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, t.d. með því að skipta yfir í aðra og umhverfisvænni orkugjafa, lagfæra samgöngumannvirki og bæta almenningssamgöngur.

b) Spara rafmagn með því að nota sparperur, slökkva á ljósum, tölvum og öðrum rafbúnaði sem ekki er í notkun og bæta einangrun húsa sem kynt eru með rafmagni.

c) Spara heitt vatn með því að bæta einangrun húsa sem kynt eru með hitaveitu, setja vatnsskammtara á allar sturtur í íþróttamiðstöðvum og nýta heitt affallsvatn til gólfhitunar eða snjóbræðslu.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með sjálfbærnivísinum:

  • Orkunotkun á mann á ári. Að baki útreikningum eru tölur um notkun eldsneytis, rafmagns og heits vatns.

 

Lykilsvið 3: Stjórnun ferskvatnsauðlinda

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Vatn er undirstaða alls lífs á jörðinni en allar þekktar lífverur verða að hafa aðgang að vatni til að starfa og fjölga sér. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem vatn gegnir lykilhlutverki í þeim líffræðilegu ferlum sem liggja lífi til grundvallar, s.s. öndun, ljóstillífun og ótal efnaskiptaferlum, en bæði niðurbrot og flutningur næringarefna ásamt myndun próteina, erfðaefnis og fjölsykra er háð vatni, svo eitthvað sé nefnt. Án vatns þrífst því ekkert líf.

Vatn þekur 71% af yfirborði jarðar. Höfin geyma rúmlega 96% þess en 1,7% eru í grunnvatni og 1,7% í jöklum og íshellum pólanna. Einungis 0,001% vatns er í andrúmslofti í formi vatnsgufu, úrkomu og skýja. Áætlað hefur verið að aðeins um 2,5% vatns á jörðinni sé ferskvatn, en 98,8% af því er í rauninni óaðgengilegt lífverum (öðrum en mönnum) þar sem það er ýmist á frosnu formi (í jöklum) eða undir yfirborði jarðar (sem grunnvatn). Minna en 0,3% af ferskvatni jarðar finnst í ám, vötnum og andrúmslofti.
Lengi vel töldu menn vatn vera óþrjótandi auðlind, en við höfum eitthvað vitkast. Þó nóg sé til af vatni ef litið er til heildarmagn vatns á jörðinni, gegnir öðru máli þegar litið er til neysluhæfs, aðgengilegs vatns, hvort sem litið er til þarfa manna, annarra dýra, plantna eða frumstæðra lífvera. Þó segja megi að hreint vatn muni seint „klárast”, því stöðug endurnýjun á hreinu vatni á sér stað með hringrás vatns á jörðinni, hefur maðurinn hins vegar gengið mjög á byrgðir Jarðar af fersku, hreinu grunnvatni. Neysluhæft vatn er því þverrandi auðlind, sem umgangast þarf af varúð.

Áætlað hefur verið að árið 2025 muni meira en helmingur mannkyns glíma við einhvers konar skort á fersku vatni og mögulega getur farið svo að árið 2030 muni vatnsþörf sumra svæða á Jörðinni verða 50% meiri en framboðið á sömu svæðum. Að jafnaði er 70% ferskvatns sem nýtt er af mönnum notað í landbúnað og þess má geta að framleiðsla á kjöti er að jafnaði mun vatnsfrekari en framleiðsla á plöntuafurðum.

Á Íslandi hefur vatn til neyslu almennt ekki verið af skornum skammti, og er ekki viðbúið að svo verði í nánustu framtíð. Hins vegar hefur verið gengið á ýmis búsvæði lífvera þar sem vatn hefur leikið lykilhlutverk. T.d. er áætlað að 55-75% af votlendi landsins hafi verið framræst (82% votlendis á Vesturlandi) og náttúrulegum árfarvegum og stöðuvötnum verið raskað vegna virkjana, mismikið eftir landsvæðum. Vatn sem rennur til sjávar nýtist mörgum lífverum á leið sinni og gegnir því mikilvægu hlutverki í viðhaldi lífríkis. Þó að ekki sé ástæða til að óttast vatnsskort í samfélögum manna á Snæfellsnesi á næstunni, verður að hafa í huga að vatn sem flutt er eftir leiðslum í stað þess að renna óbeislað til sjávar nýtist ekki náttúrulegu lífríki frá inntaki leiðslunnar til frárennslisops. Af þessum sökum er æskilegt að ekki sé bruðlað með vatn, heldur einungis tekið það magn sem nauðsynlegt er. Að auki má nefna að því meira vatnsmagn sem fer um leiðslur kerfisins, því meira álag, styttri ending og hærri viðhaldskostnaður. Að fara sparlega með vatn er því líka efnahagsleg sparnaðaraðgerð.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Eftir því sem þörf manna um Jörð alla fyrir neysluhæft vatn eykst, verður minna til handa öðrum lífverum, sem þó eru oft ekki síður háðar hreinu vatni en við. Yfirvofandi er vatnsskortur á heimsvísu, sem leitt getur til skertra lífsgæða manna, og jafnvel ógnað lífríki á afmörkuðum svæðum. Ekki er mikil hætta á að vatnsskortur verði á Snæfellsnesi, nema til komi miklar breytingar á umhverfi, s.s. skemmdir eða uppþornun vatnsbóla vegna jarðskjálfta, mengunarslysa eða afbrigðilegs veðurfars. Verði vatnsnotkun manna mjög mikil gæti það hins vegar haft staðbundin neikvæð áhrif á lífríki.

Leiðir til framfara

Sveitarfélög á Snæfellsnesi geta beitt sér fyrir því að stofnanir á þeirra vegum takmarki vatnsnotkun eftir því sem unnt er og geta auk þess hvatt íbúa til að gera slíkt hið sama. Fræðsla til íbúa og starfsmanna stofnana sveitarfélaga getur hér skipt máli, en einnig er hægt að beita ýmsum vatnssparandi aðgerðum, s.s. að hafa spartakka á salernum og hafa sjálfslökkvandi búnað á hverri sturtu í íþróttamannvirkjum.
Sveitarfélögin hafa að leiðarljósi að notkun á neysluvatni verði sem minnst, og að neysluvatnsnotkun á Snæfellsnesi verði að hámarki 800 tonn á mannár árið 2018.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi nota eftirfarandi sjálfbærnivísa til að fylgjast með þróun mála hvað varðar stjórnun ferskvatnsauðlinda á svæðinu:

  • Notkun neysluvatns á mannár í rúmmetrum (skylduvísir skv. EarthCheck). Hér er um að ræða heildar vatnsnotkun í sveitarfélögunum, og skiptir því máli hvernig íbúar, stofnanir og fyrirtæki umgangast vatn.
  • Einkunn fyrir aðgerðir til vatnssparnaðar (skylduvísir skv. EarthCheck). Ýmsar sparnaðaraðgerðir sem skilgreindar hafa verið hjá EarthCheck eiga ekki við á Snæfellsnesi. Það á t.d. við um vökvun lóða eftir myrkur og söfnun og notkun á regnvatni. Hins vegar er gert ráð fyrir mælingum á frammistöðu varðandi hlutfall vatnssparandi sturtuhausa og krana, og salerna sem hafa spartakka. Ekki er raunhæft að fylgjast með þróun þessara mála á öllum heimilum og fyrirtækjum á Snæfellsnesi, en sveitarfélög geta beitt sér fyrir vatnssparandi aðgerðum í sínum stofnunum og gefið upp tölur fyrir þær.

 

Lykilsvið 4: Verndun og stjórnun vistkerfa

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða í þjónustu vistkerfa, hún er efniviður þróunar og maðurinn sækir í hana ýmis bein verðmæti. Eyðing náttúrulegra búsvæða lífvera er ein helsta ógnin við líffræðilega fjölbreytni. Útdauði tegunda hefur orðið af náttúrulegum orsökum í tímans rás, en vegna umsvifa mannsins deyja tegundir nú út 100-10.000 sinnum hraðar en eðlilegt getur talist. Búsvæðaeyðing á stóran hlut í því, auk framandi ágengra tegunda, ósjálfbærrar nýtingar og mengunar.

Á Íslandi eiga flestar upprunalegar tegundir rætur sínar að rekja til Evrópu. Tegundafjölbreytni telst ekki há hér á landi, en líffræðileg fjölbreytni er þó sennilega meiri hér en tegundaauðgin ein og sér segir til um, vegna mikils erfðabreytileika innan tegunda og staðbundinna aðlagana að fjölbreytilegu umhverfi, t.d. í ferskvatni. Hér er einnig að finna talsvert af hánorrænum tegundum sem gætu átt undir högg að sækja í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga. Á Íslandi eru því stofnar og vistkerfi með hátt verndargildi. Umsvif mannsins hafa haft talsverð áhrif á náttúru Íslands frá landnámi, og getur innlendum tegundum hér á landi enn stafað ógn af t.d. búsvæðaeyðingu, ósjálfbærri nýtingu, mengun, loftslagsbreytingum og ágengum tegundum, ýmist svæðisbundið eða á landsvísu.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Á Snæfellsnesi gæti náttúrulegum búsvæðum og innlendum tegundum helst stafað ógn af loftslagsbreytingum, framræslu votlendis, breytingum á vatnasviðum, óhóflegri beit með tilheyrandi gróður- og jarðvegseyðingu og ágengum tegundum. Auk þessara þátta gæti aukning í náttúrutengdri ferðamennsku mögulega ógnað afdrifi lífvera, a.m.k. svæðisbundið, sé þess ekki gætt að taka tillit til þarfa dýra og plantna. Nauðsynlegt er að sveitarfélög séu meðvituð um þessar mögulegu hættur og grípi til viðeigandi ráðstafana til að vernda mikilvæg náttúruleg lykilbúsvæði.

Hagvöxtur, stækkun samfélaga og framþróun, eins og hún er skilgreind af flestu mannfólki, felur í sér að gengið er á náttúruauðlindir (vöxtur innan lokaðs og takmarkaðs kerfis getur ekki haft aðrar afleiðingar). Þetta er raunin á Snæfellsnesi eins og annars staðar í heiminum. Verði ekki staðinn vörður um svæðin með mestum líffræðilegum fjölbreytileika og þau vernduð með formlegum hætti er því hætta á að líffræðileg fjölbreytni minnki til lengri tíma. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að með aðild sinni að samningnum um líffræðilega fjölbreytni hafa Íslendingar undirgengist skuldbindingar um að vernda líffræðilega fjölbreytni.

Leiðir til framfara

Sveitarfélög geta haft úrslitaáhrif þegar kemur að verndun náttúrulegra búsvæða, með skipulagi landnotkunar og veitingu framkvæmdaleyfa. Stefnumörkun í svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi kveður m.a. á um þau svæði sem tekin hafa verið frá til verndar, landgræðslu og vistheimtar. Til að öðlast yfirsýn um það hvort æskilegt sé að friða svæði til að vernda líffræðilega fjölbreytni, verður að fara fram úttekt og stefnumótun um forsendur slíks vals, hvaða svæði kæmu til greina og forgangsraða þeim. Næsta skref væri að friða, vernda eða endurheimta með sérstökum aðgerðum þau svæði sem raðast ofarlega í slíkri úttekt og stefnumótun. Aðrar aðgerðir til verndunar líffræðilegrar fjölbreytni en friðun svæða gætu falist í aðgerðum sem leitast við að takmarka tjón af opinberlega skilgreindum ágengum tegundum, reglulegum úttektum/athugunum á ástandi beitilanda og setningu umgengnisreglna í náttúrutengdri ferðamennsku.

Í svæðastaðli umhverfisvottunarverkefnisins er notast við eftirfarandi sjálfbærnivísi til að fylgjast með þróun mála hvað varðar verndun og stjórnun vistkerfa á svæðinu:

  • Flatarmál svæða sem vernduð eru vegna innlends lífríkis, sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins (skylduvísir skv. EarthCheck).

Undirliggjandi er það markmið að vernda líffræðilega fjölbreytni, sem fer ört þverrandi um allan heim. Lítið er til af beinum rannsóknum á henni á Íslandi, en þær geta verið nokkuð dýrar í framkvæmd ef þær eiga að ná til allra flokkunareininga lífs. Þess vegna er flatarmál verndaðra svæða notað sem mælikvarði á árangur á þessu lykilsviði. Það eitt og sér er þó ekki nóg til að uppfylla skilyrði EarthCheck, heldur þarf svæðið að vera verndað í þeim tilgangi að varðveita innlendan gróður eða dýralíf. Svæði sem eingöngu eru vernduð vegna landslags, jarðfræði eða menningarminja falla því ekki í þennan flokk. Að auki er æskilegt að vakta hvort verndaraðgerðir hafi haft tilætluð áhrif á svæðum sem þeim hefur verið beitt.

Á Snæfellsnesi er norðanverð strandlengjan austan Vallabjargs og allar eyjar innan marka sveitarfélaganna verndaðar með sérlögum um vernd Breiðafjarðar, m.a. vegna lífríkis. Þá er Búðahraun friðað, m.a. vegna gróðurfars. Eru þetta einu svæðin á Snæfellsnesi sem vernduð eru vegna lífríkis. Auk þess er lífríki að einhverju leyti verndað í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, þó aðrir þættir (jarðfræði og menningarminjar) hafi haft mest áhrif á stofnun þjóðgarðsins á sínum tíma.

 

Lykilsvið 5: Stjórnun félagslegra- og menningarlegra áhrifa ferðaþjónustunnar

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi, einkum vegna mikillar og nokkuð stöðugrar fjölgunar erlendra ferðamanna sem hingað koma. Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi árið 2016 var tæplega 1,8 milljónir sem er 39% aukning frá 2015. Til samanburðar komu 672.800 erlendir ferðamenn árið 2012. Aukningin síðastliðinn áratug jafngildir 320% og sér ekki fyrir endann á fjölguninni.

Þótt ferðaþjónusta geti haft jákvæð efnahagsleg áhrif á tilteknu svæði, eru fjölmörg dæmi um að aukinn straumur ferðamanna geti einnig haft neikvæð áhrif á náttúru og menningu ferðamannastaða. Áhrif ferðaþjónustu á menningu og samfélag í heild hafa lítt verið rannsökuð hér á landi. Langflestir ferðamenn koma til Íslands vegna stórbrotinnar og óspilltrar náttúru en sumir fjölsóttir ferðamannastaðir hafa þegar náð þolmörkum og eru farnir að skemmast vegna átroðnings. Ljóst er að bregðast þarf við með verndun náttúrulegs umhverfis og, oft á tíðum, kostnaðarsamri uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum til að auka álagsþol þeirra. Ekki er síður mikilvægt að horfa til framtíðar og fyrirbyggja skemmdir vegna átroðnings á viðkvæmri náttúru svæða sem gætu orðið fjölsóttir ferðamannastaðir.

Vernd menningarminja og náttúru snýr ekki eingöngu að opinberum aðilum, heldur eru ferðaþjónustuaðilar í auknum mæli kallaðir til ábyrgðar á eigin athöfnum og athöfnum gesta sinna. Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein og aflar mikils gjaldeyris en rekstrarumhverfi er oft erfitt, m.a. vegna ójafnrar dreifingar ferðamanna um landið og yfir árið. Engu að síður er náttúran fjöregg atvinnugreinarinnar sem ber að hlúa að, sé ætlunin að hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Aðgerðaleysi í stýringu ferðamanna getur haft í för með sér óafturkræfa hnignun staðbundinnar menningar og náttúru og kemur niður á ánægju ferðamanna og ímynd landsins. Í áhættumati fyrir Snæfellsnes eru tilgreindar tvær áhættur í tengslum við stjórnun félagslegra og menningarlegra áhrifa ferðaþjónustunnar. Sú fyrri er ofnýting félagslegra gæða umfram þolmörk svæðisins í kjölfar fjölgunar ferðamanna, sem hefði í för með sér tap menningarlegrar fjölbreytni og stuðnings nærsamfélagsins við atvinnugreinina. Dæmi um slík félagsleg gæði er gestrisni, sem er mikilvæg forsenda upplifunar ferðamannsins en er líka viðkvæm fyrir ofnýtingu. Nokkrar líkur eru taldar á að þetta geti gerst og brýnt talið að fyrirbyggja það. Sú seinni er að misræmi verði á milli ímyndar samfélagsins og viðbragða ferðaþjónustufyrirtækja, með þeim afleiðingum að gestum fækki. Dæmi um þetta er ef svæðið hefur á sér þá ímynd að vera umhverfismeðvitað en eitt eða fleiri ferðaþjónustufyrirtæki sýna ekki í verki að þau hafi áhuga á að leggja sitt af mörkum til verndar umhverfisins.

Leiðir til framfara

Mikilvægt er að yfirvöld og ferðaþjónustuaðilar vinni í sameiningu að framförum í þessum málaflokki. EarthCheck leggur áherslu á að hvetja ferðamálaiðnaðinn til að ná markverðum framförum á lykilsviðum umhverfis- og samfélagsmála og jafnframt nýta sér slíkar framfarir í eigin þágu. Einhvers konar viðurkennd, óháð umhverfisvottun ferðaþjónustuaðila, t.d. hjá EarthCheck eða Norræna svaninum, eða að fyrirtæki taki upp ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfið, er talin endurspegla best þá skuldbindingu sem ferðaþjónustufyrirtæki sýna í verndun umhverfisins.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með sjálfbærnivísinum:

  • Fjöldi vottaðra ferðaþjónustufyrirtækja sem hlutfall af heildarfjölda ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu.

Hér getur þó verið gott að hafa í huga að erfitt getur verið að skilgreina hvaða fyrirtæki skuli flokkast sem ferðaþjónustufyrirtæki, en nauðsynlegt er að slík skilgreining sé skýr. Einnig hefur þessi sjálfbærnivísir þann annmarka að þótt sveitarfélög geti hvatt fyrirtæki til að fara í umhverfisvottunarferli og veitt þeim ráðgjöf og stuðning í því samhengi, geta sveitarfélög ekki stjórnað því hvort tiltekið fyrirtæki fari að þeirri ráðgjöf. Sveitarfélögin munu fyrir sitt leyti stuðla að því að vottuðum ferðaþjónustufyrirtækjum fjölgi upp í 5% af heildarfjölda ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu, en sveitarfélögin ættu að leggja áherslu á að sækjast eftir vottun stofnana eða fyrirtækja á eigin vegum, sem þjóna ferðamönnum. Hér má sérstaklega nefna tjaldsvæði, sundlaugar og söfn.

Allir skólar svæðisins ættu að taka þátt í Grænfánaverkefninu og vinna markvisst að fræðslu um umhverfismál og að öðrum verkefnum sem stuðla að umhverfisvernd.

 

Lykilsvið 6: Skipulags- og byggingarmál

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Skipulag landnotkunar er mikilvægur þáttur umhverfismála, enda tengist hann m.a. vernd og eyðingu búsvæða ásamt mögulegum uppsprettum mengunar. Skipulags- og byggingarmál eru á hendi sveitarfélaga en þau þurfa þó að hafa gott samráð við ýmsa aðra aðila, þar á meðal fyrirtæki og stofnanir. Sveitarfélög geta m.a. haft áhrif á framtíð þessa málaflokks með stefnumörkun sem birtist í skipulagsáætlunum (svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi), útboðsgögnum og leyfisveitingaferli í tengslum við framkvæmdir.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Séu skipulag, verkferlar og leiðbeiningar um skipulags- og byggingarmál í þágu sjálfbærrar þróunar óskýr eða ekki fyrir hendi, er hætta á tapi búsvæða lífvera og neikvæðum breytingum á fjölda og útbreiðslu tegunda.

Leiðir til framfara

Tryggja þarf að skipulagsáætlanir, sem og útboðsgögn vegna framkvæmda og viðhalds, innihaldi skýrar leiðbeiningar um að sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi við allar framkvæmdir á svæðinu og að í þeim sé mótuð trúverðug stefna um vernd landslags og jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Sá sjálfbærnivísir sem samkvæmt svæðastaðli EarthCheck vegur þyngst í einkunnargjöf fyrir þetta lykilsvið er:

  • Flatarmál grænna svæða sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins.

Þessi mælikvarði á helst við um borgarsamfélög en á lítið erindi við strjálbýl svæði eins og Snæfellsnes og hefur EarthCheck fallist á þá túlkun. Annar vísir er mun mikilvægari fyrir Snæfellsnes:

  • Flatarmál verndaðra svæða m.t.t. vernd upprunalegra tegunda, sem hlutfall af heildarflatarmáli Snæfellsness,

Fjallað er um seinni vísinn undir lykilsviði 4, verndun og stjórnun vistkerfa. Sjálfbærnivísarnir eru mikilvægir til að mæla árangur aðgerða í umhverfismálum en ná þó ekki til allra þeirra atriða sem taka verður tillit til í vottunarferlinu. Til að mynda hefur úttektaraðili bent á að innlima þurfi sjálfbærni með skýrari hætti inn í ákvarðanatöku varðandi skipulag, útboð verkefna og verkferla leyfisveitinga. Um það er nánar fjallað í 8. kafla framkvæmdaáætlunarinnar.

 

Lykilsvið 7: Félagshagfræðilegur ávinningur svæðisins af ferðaþjónustu

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Ávinningur svæðis af ferðaþjónustu getur verið efnahags-, félags- og menningarlegur. Sé rétt að málum staðið gæti ávinningur af ferðaþjónustu jafnvel orðið umhverfislegur, þó að slíkt heyri yfirleitt til undantekninga.

Efnahagslegi ávinningurinn getur verið sá að inn streymir fjármagn, oft erlendur gjaldeyrir, og störf verða til í tengslum við samgöngur, gistingu, mat og afþreyingu, auk fjölmargra annarra afleiddra starfa í þjónustu- og framleiðslugreinum. Ferðaþjónustan getur líka flýtt fyrir innri uppbyggingu, s.s. samgöngumannvirkja og þjónustu. Mikilvægt er að stærstur hluti ávinningsins verði eftir á svæðinu og nýtist til uppbyggingar þar en flytjist ekki út af því, t.d. til höfuðstöðva fyrirtækja sem starfa annars staðar.
Félagslegur ávinningur getur falist í stolti heimamanna yfir því að fólk sé tilbúið að verja tíma og fjármagni til að koma og skoða náttúru og menningu svæðisins.

Ferðaþjónusta getur leitt af sér ávinning fyrir umhverfið á grundvelli þess að hann veki athygli á gildi þess og að náttúran sé bein eða óbein tekjulind. Þá getur ferðaþjónustan mögulega með innflæði fjármagns stuðlað beint eða óbeint að vernd vistkerfa og betri stjórn auðlindanotkunar, sem eykur gildi áfangastaðarins og gerir hann eftirsóttari heim að sækja. Um leið styður verndin við staðbundin ferðaþjónustufyrirtæki sem byggja á náttúru- eða menningarauði. Rétt er þó að hafa í huga að ófullkomin stjórn ferðamannastraums eða óábyrg umgengni ferðaþjónustuaðila hefur tilhneigingu til að hafa þveröfug áhrif á umhverfið og getur valdið verulegum náttúruspjöllum.

Mikilvægt er að sá ávinningur sem af ferðaþjónustu hlýst, skili sér til heimaaðila og stuðli að efnahags- og umhverfislegri sjálfbærni samfélagsins en renni ekki út af svæðinu.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Í áhættumati fyrir Snæfellsnes er talin lítil hætta á því að hagnaður af ferðaþjónustu flytjist út af svæðinu og valdi þar með minni arðsemi í héraði.

Leiðir til framfara

Enga skilgreinda sjálfbærnivísa fyrir þennan þátt er að finna hjá EarthCheck, en það má líta svo á að félagshagfræðilegur ávinningur af ferðaþjónustu felist að hluta til í að ferðaþjónustufyrirtæki hafi fengið staðfestingu óháðs aðila á að þau leitist við að takmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi sinni. Ferðaþjónustuaðilar þjónusta tugi þúsunda gesta á Snæfellsnesi ár hvert og ef þeir bæði miðluðu þeim viðmiðum sem sveitarfélögin fylgja og færu sjálfir eftir ákveðnum umhverfisstöðlum, fæli það í sér ávinning fyrir samfélag og efnahag. Það á til að mynda við um stjórnun úrgangs í föstu formi, verndun og stjórnun vistkerfa og önnur lykilsvið sem framfylgja verndun umhverfis og menningu. Hægt er að meta hlutfall þeirra fyrirtækja út frá óháðri umhverfisvottun frá aðilum líkt og Vakanum eða EarthCheck. Það hlutfall er einn af skylduvísum EarthCheck.

Einnig væri hægt að auka félagshagfræðilegan ávinning af ferðaþjónustu með lengri ferðamannatíma en þannig verða ferðaþjónustufyrirtæki rekstrarhæfari einingar. Sérstaklega ætti að huga að afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn utan háannatíma. Sveitarfélögin geta komið beint að þessu með því að ganga á undan með lengingu opnunartíma safna. Með auknu framboði afþreyingar innan og utan helsta ferðamannatímans verður Snæfellsnes enn ákjósanlegri áfangastaður ferðamanna sem staldra lengur við en eina nótt og sækjast eftir náttúru-, menningar- og sögutengdri upplifun. Allar auglýsingar og markaðssetning Snæfellsness skulu vera í anda þeirrar ímyndar sem svæðið stendur fyrir.

 

Lykilsvið 8: Verndun loftgæða og stjórnun hávaða

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Athafnir á vegum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana geta haft veruleg áhrif á loftgæði og hávaða. Léleg loftgæði eru verulegt vandamál víða um heim, sérstaklega á þéttbýlum svæðum, og hafa verið tengd við lægri lífslíkur og hærri tíðni ýmissa sjúkdóma, sérstaklega tengdum öndunarvegi. Þá getur hávaði valdið streitu og þar með ógnað heilsu.

Ferskt loft, kyrrð og næði eru mikilvægir þættir í lífsgæðum og snerta heilsu og hamingju íbúa og upplifun ferðamanna. Að öðru jöfnu versna loftgæði með þéttleika og stærð byggðar.

Á meðal þeirra efna sem valdið geta ólykt eða óheilnæmu lofti eru köfnunarefnis- og brennisteinssambönd, sem einkum losna við brennslu jarðefnaeldsneytis, sorps eða við aðra brennslu. Svifryk losnar með sama hætti en líka af óslitlögðum vegum og ófrágengnum lóðum/athafnasvæðum. Einnig losnar svifryk á náttúrulegan hátt úr fokgjörnum eldfjallajarðvegi landsins. Loftborin mengunarefni geta verið skaðleg náttúrunni og orsakað ýmis heilsufarsvandamál hjá fólki og öðrum dýrum, sérstaklega ef um mikla eða viðvarandi losun er að ræða.

Snæfellsnes er strjálbýlt, vindasamt og án stóriðnaðar á landi. Loftgæði eru þar af leiðandi yfirleitt með því besta sem gerist. Vandamál í tengslum við losun köfnunarefnis- og brennisteinsoxíða eru lítil hér en málefni tengd loftgæðum taka á sig aðra mynd, einkum þar sem lykt leggur frá fiskverkunarhúsum. Um er að ræða fá og staðbundin mál, sem þó geta haft áhrif á lífsgæði.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Án fyrirbyggjandi aðgerða er möguleg hætta á auknum hávaða í þéttbýli við helstu umferðaræðar og stærri fyrirtæki, sem og möguleg hætta á lyktarmengun á stöku stað, sérstaklega í tengslum við fiskverkun. Afleiðingar þessa gætu verið minnkandi lífsgæði og ánægja íbúa.

Leiðir til framfara

Árangursríkustu leiðirnar til að draga úr loftmengun vegna jarðefnaeldsneytis eru þær sömu og tilgreindar eru við lykilsvið 1 og 2. Í alþjóðlegu samhengi er hvað mikilvægast að stíga skref í átt til orkuskipta í samgöngum en einnig þarf að huga að staðbundnum lausnum á ónæði íbúa og gesta frá sérhæfðum fyrirtækjum í vinnslu sjávarafurða. Einnig má nefna að með skipulagsákvörðunum geta sveitarfélögin minnkað hættu á að loftborin efnamengun ógni heilsu og dragi úr lífsgæðum íbúa og ferðamanna.
Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með þremur sjálfbærnivísum:

  • Losun köfnunarefnisoxíða (NOx) á hektara
  • Losun brennisteinsoxíða (SOx) á hektara
  • Magn svifryks (PM10) á hektara

Ekki eru til beinar mælingar á þessum efnum á Snæfellsnesi en losun þeirra er áætluð út frá heildarakstri á Snæfellsnesi, sem metinn er út frá tölum um bifreiðaeign og akstur frá Umferðarstofu.

 

Lykilsvið 9: Stjórnun fráveitumála og yfirborðsvatns

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Hreint vatn er gríðarlega dýrmæt en þverrandi auðlind á heimsvísu. Varúð við umgengni vatns er því mikilvægt umhverfis-, heilbrigðis- og mannréttindamál (sjá umfjöllun um vatn við lykilsvið 3, stjórnun ferskvatnsauðlinda). Áhersla þessa sviðs liggur helst í því að draga úr neikvæðum umhverfis- og heilsufarstengdum áhrifum skólps og tryggja ákjósanlegt ástand grunnvatns og yfirborðsvatns (kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar; straumvötn, stöðuvötn, jöklar og strandsjór).

Vatn getur helst mengast vegna losunar ó- eða lítið meðhöndlaðs skólps, og vegna efna sem berast í það frá iðnaði eða landbúnaði. Helstu hlutar skólps sem berst frá heimilum og fyrirtækjum eru vatn, lífræn efni úr saur og frá matvælavinnslu, jarðefni (sandur o.fl.), örverur, næringarefni, olíu- og leysiefni og þrávirk mengunarefni, t.d. þungmálmar og varnarefni. Helstu skaðvaldarnir eru mengunarefni og sýklar (hluti örvera) en sjónmengun er einnig á meðal neikvæðra áhrifa skólps. Þá getur uppsöfnun lífrænna efna valdið staðbundinni ofauðgun. Víða um heim hafa skapast alvarleg vandamál vegna mengunar vatns frá iðnaði (t.d. þungmálmar) og landbúnaði (t.d. áburður og varnarefni), eða vegna efna sem leka frá sorphaugum.

Mengun strandsjávar getur einnig verið af hafrænum uppruna og komið til vegna olíuslysa og sorplosunar á hafi.

Snæfellsnes er auðugt af hreinu vatni og sjórinn er almennt lítið mengaður miðað við önnur svæði, ef frá eru talin svæði næst útrásum fráveitukerfa. Á Snæfellsnesi eru engin stór iðnaðarfyrirtæki og notkun áburðar og varnarefna í landbúnaði fremur lítil miðað við önnur lönd og flatarmál svæðisins. Fráveitumál í dreifbýli virðast almennt í sæmilegu horfi en helstu viðfangsefni framtíðarinnar tengjast fráveitum í þéttbýli, sem uppfylla ekki íslenskar reglugerðir.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Á Snæfellsnesi er mest hætta á mengun yfirborðsvatns vegna skólps. Í ljósi þess að enginn stóriðnaður er á svæðinu og að skólpi þéttbýlisstaða er beint til sjávar, stafar mest hætta af gerlamengun strandsvæða, sem valdið getur sýkingarhættu og haft neikvæð áhrif á ímynd og arðsemi ferðamannastaða og matvælafyrirtækja. Samkvæmt áhættumati eru líkur á að þetta gerist taldar í meðallagi háar og afleiðingar þess nærri meðallagi alvarlegar. Olíuslys og önnur mengunarslys eru ólíklegri en gætu haft gríðarlega neikvæðar afleiðingar fyrir viðkvæmt lífríki svæðisins. Veturinn 2012-13 drápust um 50 þúsund tonn af síld í Kolgrafafirði og varð talsverð lífræn mengun í kjölfarið. Heimamenn, ríkisstjórn, ráðuneyti og stofnanir unnu saman að því að reyna að vakta og takmarka tjónið fyrir lífríki og landbúnað. Þessu tengt, þá veiddu stór síldveiðiskip í mjög grunnum sjó og miklum straumi í eyjasundum við norðanvert Snæfellsnes þá vetur sem mikið magn síldar gekk inn á Breiðafjörð. Við þetta jókst verulega hættan á mengunarslysi vegna skipsskaða, auk þess sem brögð voru að því að nætur rifnuðu og hundruð tonna síldar drápust. Ríkisvaldið og hagsmunaaðilar útgerðanna hafa ekki tekið undir hugmyndir um takmörkun á veiðum við þessar krefjandi aðstæður.

Leiðir til framfara

Bæta þarf grunnþekkingu á ástandi vatns með sýnatöku og koma á fót einhvers konar vöktun á því til að bæta yfirsýn um málaflokkinn. Þá er brýnt að huga að úrbótum í fráveitumálum þéttbýlisstaða. Huga þarf að fræðslu til íbúa um það sem fara má í frárennsliskerfið, bæði m.t.t. rekstrar kerfisins (hlutir sem stífla) og umhverfisins (mengandi efni sem eiga að fara í eyðingu en ekki niðurfallið). Til lengri tíma þarf að skoða reglur varðandi flutning hættulegra efna yfir vatnasvið á landi og mikilvæg svæði á sjó og tryggja að fyrir liggi staðbundnar viðbragðsáætlanir vegna mengunarslysa.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með sjálfbærnivísinum:

  • Hlutfall vatnssýna sem standast kröfur um hreinleika

Fram til þessa hefur eingöngu verið notast við mælingar á sýnum úr drykkjarvatni. Miðað við þá þætti sem lykilsviðið nær til væri eðlilegra að miða við vatnssýni sem tekin væru úr yfirborðsvatni (kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og strandsjór). Þó að það hafi ekki verið gert hingað til væri æskilegt að slíkar mælingar væru framkvæmdar reglulega.

 

Lykilsvið 10: Stjórnun úrgangs á föstu formi

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Sorp og annar fastur úrgangur er krefjandi viðfangsefni í sveitarfélögum og á heimsvísu. Sorplosun hefur í för með sér neikvæð umhverfisáhrif, m.a. vegna taps verðmætra auðlinda (hráefni sem fara til spillis), losunar mengandi efna vegna leka úr sorphaugum, ófullkominnar sorpbrennslu, sorpflutninga og landskemmda á urðunarstað. Einnig getur umsjón sorpmála haft mikil jákvæð eða neikvæð áhrif á ímynd sveitarfélaga og þar með efnahag og samfélag. Aukið magn sorps þýðir að jafnaði meiri sóun og hefur í för með sér meiri umhverfisspjöll og kostnað. Úr sorphaugum stígur metan, sem er öflug gróðurhúsalofttegund, og úr þeim leka gjarnan mengandi efni út í jarðveg og grunnvatn, sem geta haft mikil áhrif á lífríki. Við ófullkominn bruna sorps losnar fjöldi eiturefna, þar á meðal díoxín, sem er eitt eitraðasta efnið í náttúrunni. Af þessu má ráða að minnkun í heildarmagni sorps, sérstaklega þess hluta sem fer til urðunar, og aukið hlutfall endurnýtingar, endurvinnslu og jarðgerðar lífræns úrgangs sparar auðlindir og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ávallt skal hafa í huga að allur „lífsferill” efna og hluta, þ.e. umsvif sem að baki þeim standa, allt frá framleiðslu, pökkun og flutningi þeirra frá framleiðslustað til neytanda og þaðan til urðunar, endurnýtingar eða endurvinnslu, hefur í för með sér mengun.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Mikið sorp fellur til frá heimilum og fyrirtækjum. Því meira sorp, því meiri kostnaður og neikvæð umhverfisáhrif, t.d. vegna landrýmis og mengunar. Mikið hefur áunnist í sorpmálum á Snæfellsnesi undanfarinn áratug og er móttaka og endurvinnsla sorps víða í ágætum farvegi. Hins vegar er talsverð hætta er á að sorpmagn aukist enn frá því sem nú er og brýnt að koma í veg fyrir það.

Leiðir til framfara

Mikilvægasta leiðin til að minnka umhverfisáhrif og minnka kostnað vegna sorps er að draga almennt úr innkaupum og þar með sorpmyndun. Þegar þau eru óhjákvæmileg ætti að beina innkaupum að vörum í stórum (meira magn), endurvinnanlegum en efnislitlum (þunnum/einföldum) umbúðum. Það er besta leiðin til að draga úr sorpmyndun með fyrirbyggjandi aðgerðum og á það við bæði um starfsemi sveitarfélaga og annarra. Fyrsta skrefið í þá átt er að auka vitund með fræðslu.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með þremur sjálfbærnivísum:

  • Magn úrgangs til urðunar á mann á ári (miðað við heildarsorpmyndun allra í sveitarfélögunum)
  • Hlutfallsleg endurvinnsla úrgangs (allur úrgangur í sveitarfélaginu)
  • Hlutfall umhverfismerktrar pappírsvöru (á við um innkaup á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra

 

Lykilsvið 11: Geymsla og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Lífvirk, manngerð efni sem brotna hægt eða illa niður í náttúrunni ógna víða lífverum og vistkerfum. Um er að ræða efni sem nýtt eru í fjölbreyttum tilgangi. Þegar litið er til starfsemi sveitarfélaga á Snæfellsnesi er helst um að ræða varnarefni (gegn skordýrum, illgresi, sveppum eða nagdýrum), hreinsiefni, lífræna leysa, málningu og eldsneyti. Skaðsemi þessara efna er fjölbreytileg og fara eitrunaráhrif m.a. eftir styrk og magni efnanna sem um ræðir. Þó geta sum efni haft veruleg áhrif í lágum styrk. Eitrunaráhrifin geta verið skyndileg, t.d. bruni, eða tekið langan tíma að koma fram, t.d. krabbamein. Í sumum tilfellum koma áhrifin ekki að fullu fram fyrr en heilli kynslóð síðar, t.d. hormónaáhrif varnarefna sem geta valdið ófrjósemi ófæddra afkvæma þeirra sem fyrir efnunum verða. Sum hreinsiefni innihalda fosfat, sem getur valdið ofauðgun og þar með súrefnisskorti í ferskvatni og sjó.

Auk þess að skapa mögulega ógn við notendur og umhverfi þegar efnunum er beitt, geta þau valdið hættu við geymslu, t.d. við eldsvoða eða ef frágangur er ófullnægjandi og ílát leka.

Efni sem skaðleg eru umhverfinu komast þangað með ýmsum leiðum. Sumum er meðvitað sprautað út í umhverfið (þar á meðal varnarefnum) en önnur berast t.d. í frárennsliskerfi og þaðan í sjó (þar á meðal hreinsiefni).

Mikilvægt er að draga eins og kostur er úr notkun þessara efna. Sé einhver notkun óhjákvæmileg skal frekar velja efni sem eiga sér lífrænan uppruna og brotna niður í náttúruleg efni eftir notkun (biodegradable) og bera viðurkennd umhverfismerki, sem vitnar um að þau valdi minni neikvæðum umhverfisáhrifum í framleiðslu, notkun og förgun en meirihluti sambærilegra efna.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Ýmsar hættur geta falist í notkun og geymslu efna sem skaðleg eru umhverfinu. Líkur á illmælanlegum áhrifum, þar á meðal hormónaáhrifum, á notendur eða umhverfi eru nokkrar, t.d. við notkun varnarefna án viðeigandi hlífðarbúnaðar. E.t.v. eru meiri líkur á sýnilegum alvarlegum áhrifum vegna geymslu efnanna. Sem dæmi má nefna getur ófullnægjandi frágangur umbúða, t.d. olíutanka, valdið leka út í umhverfið, mengun jarðvegs og grunnvatns og skaða á t.d. fugla- og smádýralífi.

Leiðir til framfara

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi stefna á að hætta losun efna sem skaðleg eru umhverfinu. Mengunarvarnir í höfnum og á landi skulu uppfylla lög og reglugerðir og vera eins og best verður. Þá skal varnarefnanotkun hætt nema í neyðartilfellum og fyrirbyggjandi aðgerðum beitt svo það megi verða. Þær felast m.a. í vali trjágróðurs sem ekki dregur að sér fjölda meindýra. Dregið verður úr hreinsiefnanotkun, m.a. með því að nota örtrefjatuskukerfi í auknum mæli. Öll keypt hreinsiefni skulu bera viðurkennd umhverfismerki. Þegar vottuð efni eru ekki í boði til að skipta út þrávirkum efnum sem valda skaða á náttúrunni, verður leitast við að nota minna eitruð efni sem eiga sér lífrænan uppruna og brotna niður í náttúruleg efni eftir notkun.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi nota einkum tvo sjálfbærnivísa til að fylgjast með þróun mála hvað varðar geymslu og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu:

  • Hlutfall varnarefna sem eiga sér lífrænan uppruna og brotna niður í náttúruleg efni eftir notkun af heildarnotkun varnarefna (gildir um varnarefnanotkun á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra, en ekki heildarnotkun allra íbúa Snæfellsness)
  • Hlutfall umhverfisvottaðra hreinsiefna af heildarnotkun hreinsiefna (gildir um notkun á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra).

 

Lykilsvið 12: Verndun menningarminja

Hvers vegna þetta lykilsvið?

Menningararfurinn er mikilvægur hluti af sögu og sjálfsmynd samfélaga og þess vegna er verndun hans hluti af sjálfbærri þróun.

Snæfellsnes er sögusvið nokkurra Íslendingasagna og víða er hægt að lesa söguna úr landslaginu. Gengnar kynslóðir, allt frá landnámsöld, hafa skilið eftir spor eins og t.d. lýsisgryfjur, fiskbyrgi, hlaðna brunna, gamlar verbúðir, gömul hús og rústir af ýmsum öðrum mannvirkjum. Gömlu þjóðleiðirnar tengja saman menningarminjaheildir og ekki má heldur gleyma ósýnilegu víddinni, t.d. hulduverum og orkustraumum. Þó að íslenskar menningarminjar láti oft lítið yfir sér eru þær dýrmæt auðlind. Menningarlandslag er lifandi hugtak og breytingum háð en engu að síður eru til leiðir til að skrá það, greina og vernda, oft með nýtingu. Heimildir og sagnir um búsetu og lifnaðarhætti fólks fyrr á tímum eru einnig mikilvægar til að tengja saman minjar og notkun.

Til er fornleifaskráning fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul að hluta, Stykkishólmsbæ og Grundarfjarðarbæ. Gamlar þjóðleiðir hafa verið kortlagðar að einhverju leyti og töluvert skráð af heimildum og örnefnum en margt er óskráð ennþá og eingöngu geymt í hugum eldri kynslóða. Menningarlandslag hefur ekki verið kortlagt og ekki er til samantekt á menningarminjum á öllu Snæfellsnesi. Húsakönnun var gerð í Stykkishólmi 1978, en hún þarfnast uppfærslu. Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um húsakannanir í sveitarfélögunum.

Áhættan við að aðhafast ekkert

Lagaumhverfi og verndun menningarminja á Íslandi er að mörgu leyti í góðum farvegi. Í áhættumati fyrir Snæfellsnes er engu að síður talið líklegt að einhverjar menningarminjar tapist vegna rofs og ágangs sjávar, vatns og vinda, vegna skorts á viðhaldi eða búfjárbeitar. Sömuleiðis eru taldar nokkrar líkur á skemmdum vegna framkvæmda, svo sem jarðvinnu. Þá er talið nær öruggt að örnefni glatist vegna breyttra búskapar- og búsetuhátta. Afleiðingar eru tap menningarminja og menningarlegrar fjölbreytni og minni ánægja íbúa og gesta.

Leiðir til framfara

Bæta mætti vernd menningarminja með því að ljúka við skráningu og flokkun menningar- og fornminja á Snæfellsnesi og gera válista og verndaráætlun fyrir þær. Sömuleiðis með því að vinna að skráningu og samantekt á sögulegum heimildum, munnlegum og skriflegum, um Snæfellsnes, m.a. um atvinnu- og búsetusögu svæðisins. Þá er æskilegt að gömul mannvirki og aðrar minjar séu vel hirtar og þeim viðhaldið, að útbúin verði heildarstefna í sýninga- og safnamálum á Snæfellsnesi og að áhersla verði lögð á að kynna sýningar og söfn fyrir ferðamönnum.

Ekki hafa verið skilgreindir sjálfbærnivísar fyrir þennan þátt hjá EarthCheck. Rætt hefur verið um að skilgreina valkvæða sjálfbærnivísa, t.d. um hlutfall (%) húsa 100 ára og eldri sem gerð hafa verið upp. Í þessu sambandi mætti m.a. nýta upplýsingar um byggingarleyfi, húsafriðunarstyrki o.s.frv. Væntanlega þyrfti einnig að gera húsakönnun til að skapa fullnægjandi yfirlit um þau hús sem hér um ræðir.

Deila