Skýrslur og skjöl
Hér má finna ýmsar skýrslur og skjöl sem varpa ljósi á sjálfbærni Snæfellsness. Þar má kynna sér árangur verkefna, frammistöðu sveitarfélaganna, framkvæmdaáætlanir og áhættumat, auk upplýsinga um umhverfisvottun og lykilsvið verkefnisins.
Frammistöðuskýrsla EarthCheck
Frammistöðuskýrslan (Benchmarking Performance Report) er unnin árlega af sérfræðingum EarthCheck, á grundvelli gagna sem verkefnastjóri á Snæfellsnesi safnar og skilar. Í skýrslunni kemur fram hvernig Snæfellsnes stendur sig í sjálfbærnimálum út frá ýmsum mælikvörðum, svo sem orku- og vatnsnotkun, eldsneytisnotkun, úrgangslosun, notkun skaðlegra efna og félagslegum þáttum eins og atvinnuleysi og glæpatíðni.
Niðurstöðurnar eru bornar saman við lágmarkskröfur (base level) og framúrskarandi frammistöðu (best performance). Ef ákveðnir þættir ná ekki lágmarkskröfum fylgja skýrslunni meðmæli um hvernig bæta megi árangurinn til framtíðar.
Áhættumat Snæfellsness
Áhættumat Snæfellsness er unnið í samræmi við EarthCheck-staðalinn fyrir samfélög og byggir á tólf lykilsviðum sem tengjast sjálfbærni og samfélagsþróun á svæðinu. Markmið matsins er að greina hugsanlega áhættuþætti sem geta haft áhrif á samfélagið, umhverfið og efnahagslífið á Snæfellsnesi, og að styðja við ákvarðanatöku sem byggir á traustum gögnum og langtímasýn.
Áhættumatið er hluti af vinnu við sjálfbærniverkefni Snæfellsness og veitir mikilvæga innsýn í styrkleika svæðisins, áskoranir og tækifæri til umbóta. Með reglulegri endurskoðun tryggjum við að matið endurspegli raunverulegar aðstæður og styðji við ábyrga þróun til framtíðar.
Ársskýrslur
Ársskýrslan vegna umhverfisvottunar Snæfellsness hjá EarthCheck dregur saman helstu árangur og verkefni ársins á sviði sjálfbærni. Í skýrslunni má finna upplýsingar um ýmis málefni sem hafa áorkast á árinu tengd lykilsviðum innan umhverfis, samfélags, efnahags og menningar – þó ekki öllu sem unnið er að á svæðinu.
Einnig má sjá tölulega frammistöðu Snæfellsness samkvæmt frammistöðuskýrslu EarthCheck (Benchmarking Performance Report), þar sem þróun er greind yfir tíma út frá mælanlegum gögnum. Þannig gefur ársskýrslan bæði yfirsýn yfir stöðu svæðisins og framvindu sjálfbærniverkefnisins, auk þess sem hún sýnir hvernig Snæfellsnes vinnur markvisst að því að styrkja sjálfbærni til framtíðar.
Framkvæmdaáætlun Snæfellsness
Framkvæmdaáætlun Snæfellsness dregur upp heildstæða mynd af markmiðum og verkefnum sem snúa að sjálfbærri þróun svæðisins. Hún byggir á lykilsviðum sem tryggja jafnvægi milli umhverfis, samfélags, efnahags og menningar og leiðbeinir um hvernig sveitarfélögin vinna markvisst að því að styrkja sjálfbærni til framtíðar.
Í áætluninni er fjallað um helstu forsendur verkefnisins, lykilkröfur EarthCheck-samtakanna fyrir vottað sveitarfélög og þær áherslur sem stuðla að árangri á svæðinu. Þá er þar að finna skýra sýn á verkefni sem unnið verður að á næstu árum, með áherslu á árangur og markmið sem sett eru fyrir árið 2026. Áætlunin endurspeglar reglulega endurmat og frammistöðu verkefnisins, sem tryggir að Snæfellsnes þróist í samræmi við stefnu og raunverulega þörf samfélagsins.
Skref í rétta átt
Árið 2015 var gefin út áratugaskýrsla sem dregur saman árangur umhverfisvottunar sveitarfélaganna á Snæfellsnesi frá upphafi verkefnisins. Skýrslan varpar ljósi á framfarir í umhverfismálum, kostnað og ávinning verkefnisins, áskoranir og lærdóm sem fengist hefur á þessum árum.
Vottunin nær til beinnar starfsemi sveitarfélaganna, svo sem rekstrar stofnana og mannvirkja, úrgangslosunar, vatnsveitu og öryggis- og skipulagsmála. Frammistaða sveitarfélaganna er mæld með sjálfbærnivísum, svo sem losun koltvísýrings, neyslu vatns, úrgangsmagni og notkun umhverfismerktra vara.