function change_read_more_text($more) { return '... Your Custom Text'; } add_filter('excerpt_more', 'change_read_more_text'); Lesa meira

Í gær, 8. júní, tóku sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull á móti skjölum til staðfestingar því að hafa hlotið umhverfisvottun frá Green Globe vottunarsamtökunum. Viðstaddir hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru m.a. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Alþingis og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis, Sturla Böðvarsson, þingmenn, sveitarstjórnafólk og fjöldi annarra gesta. Ísland getur þar með státað sig af því að vera fyrsta landið í Evrópu með umhverfisvottuð samfélög en fram til þessa hefur aðeins þremur öðrum samfélögum í heiminum tekist að ná vottun.

Green Globe eru einu vottunarsamtökin sem votta starfsemi heilla samfélaga. Viðmið og staðlar þeirra byggja á sömu hugmyndafræði og Staðardagskrá 21 og kemur Green Globe vinna sveitarfélaganna á Snæfellsnesi því í stað Staðardagskrárvinnu þeirra. Með því að ganga inn í vottunarferli Green Globe hefur Snæfellsnes þó stigið skrefinu lengra, þar sem umhverfisvinnan er nú reglulega metin af óháðum þriðja aðila.

Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg til að stíga þetta mikilvæga skref í sögu umhverfismála á Íslandi. Vottunarverkefnið hófst formlega árið 2003 fyrir tilstilli þeirra hjóna Guðlaugs heitins og Guðrúnar Bergmann, sem unnu ötullega að verkefninu frá upphafi, og hefur sömuleiðis notið ómetanlegrar ráðgjafar Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings hjá Umís í Borgarnesi. Starfmenn Náttúrustofu Vesturlands hafa tekið þátt í stefnumótun og stjórn verkefnisins nánast frá upphafi og starfsmaður þess, Þórunn Sigþórsdóttir, er jafnframt starfsmaður Náttúrustofunnar. Einnig hafa sveitarstjórar og sveitarstjórnir á Snæfellsnesi sýnt mikla framsýni með þátttöku í verkefninu og er þá ógetið fjölda annarra sem stuðlað hafa að framgangi þess.

Framsögumenn og nokkrir aðstandendur verkefnisins. Efri röð frá vinstri: Benedikt Benediktsson oddviti Helgafellssveitar, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Guðrún Bergmann frumkvöðull, Róbert A. Stefánsson formaður Framkvæmdaráðs Snæfellsness sem undirbúið hefur vottunina og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands og Kjartan Bollason frá Háskólanum á Hólum, úttektaraðili Green Globe á Íslandi. Neðri röð frá vinstri: Eggert Kjartansson oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Sturla Böðvarsson forseti Alþingis, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og Þórunn Sigþórsdóttir umhverfisfulltrúi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti í ræðu sinni vottun Snæfellsness í alþjóðlegt samhengi og fjallaði m.a. um mikilvægi þess að íbúar jarðar taki höndum saman um að bæta umgengni sína við náttúruna. Hann hrósaði Snæfellingum í hástert fyrir frumkvæði sitt til framfara í umhverfismálum.

Menja von Schmalensee, fyrrum varaformaður Framkvæmdaráðs Snæfellsness, límir nýja merkið á skiltið við Haffjarðará aðfaranótt 8. júní. Merkið er tákn um að Snæfellsnes hafi hlotið vottun Green Globe samtakanna.

Deila