function change_read_more_text($more) { return '... Your Custom Text'; } add_filter('excerpt_more', 'change_read_more_text'); Lesa meira

Greinilegur áhugi er fyrir EarthCheck umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, bæði innanlands og utan. Verkefnið var kynnt á umhverfisráðstefnu sem haldin var á vegum SEEDS sjálfboðaliðasamtakanna í nóvember og vakti mikla athygli meðal ráðstefnugesta. Þar var íbúum Snæfellsness klappað lof í lófa fyrir að vera í forystu í sjálfbærnimálum sveitarfélaga á Íslandi.

Á grundvelli þess að Snæfellsnes væri fyrirmynd annarra samfélaga fyrir þau skref sem hafa verið tekin í átt að sjálfbærara samfélagi og þátttöku íbúa í að minnka vistspor sveitarfélaganna var fulltrúa EarthCheck verkefnisins boðið að halda kynningu á EarthCheck og sorpmálum Stykkishólmsbæjar á fyrrnefndri ráðstefnu sem haldin var í tilefni af fimm ára afmæli SEEDS sjálfboðaliðasamtakanna. Ráðstefnan var haldin í Iðnó þann 16. nóvember og var Ómar Ragnarsson heiðursgestur hennar. Mikið var um áhugaverða fyrirlestra á samkomunni. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru fulltrúar frá Landvernd og Umhverfisstofnun auk nafnkunnra umhverfissinna eins og Andra Snæs Magnasonar.

En áhuginn á umhverfisvottuninni á Snæfellsnesi er ekki einungis bundinn við Ísland. Á haustdögum heimsótti hópur sveitarstjórnarmanna frá Tékklandi sveitarfélög á Vesturlandi í þeim tilgangi að kynna sér vinnu sveitarfélaganna í fjórðungnum að umhverfismálum (sjá frétt á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands). Ferðin var að mestu leyti kostuð af Þróunarsjóði EFTA, en Environice í Borgarnesi átti stóran þátt í skipulagningunni hérlendis í samvinnu við Vaxtarsamning Vesturlands og ráðgjafarstofuna MCN í Prag.

Á ferð sinni um Vesturland kom hópurinn við á Snæfellsnesi þar sem hann fékk meðal annars kynningu á EarthCheck vottunarverkefninu sem sveitarfélögin og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull taka þátt í. Voru gestirnir mjög áhugasamir um allt sem þeim var kynnt og voru greinilega á svæðinu til þess að fræðast. Í kjölfar heimsóknarinnar var nokkrum aðilum af Vesturlandi boðið að heimsækja Tékkland í sams konar tilgangi. Var fulltrúi EarthCheck verkefnisins meðal þeirra sem boðið var í þá ferð, meðal annars í þeim tilgangi að kynna vottunarverkefnið á umhverfisráðstefnu sem haldin var í Prag þann 11. nóvember síðastliðinn.

Deila