Önnur greinin í greinaröðinni um umhverfisvottun Snæfellsness birtist í svæðisblöðunum í dag:
Aðalhlutverk sveitarfélaga er að skapa íbúum og fyrirtækjum umhverfi sem þau geta blómstrað í. Til að stuðla að því og góðri framtíð komandi kynslóða hafa flest sveitarfélaganna á Íslandi þegar hafið vinnu við svokallaða Staðardagskrá 21, þar sem þau setja sér ákveðna stefnu og markmið hvað sjálfbærni varðar. Þó að margt gott megi segja um þá vinnu vill hún oft verða meira í orði en á borði, m.a. vegna þess að enginn fylgist með því hvort unnið sé að settum markmiðum. Stefnan getur því auðveldlega endað ofan í skúffu og gleymst. Að auki er ekki gerð krafa um uppfyllingu lágmarksskilyrða á öllum sviðum umhverfis- og samfélagsmála, ólíkt því sem tíðkast hjá viðurkenndum umhverfismerkjum.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa stigið skrefi lengra en önnur sveitarfélög á Íslandi með því að sækjast eftir vottun óháðs þriðja aðila, EarthCheck. Um er að ræða viðurkennd vottunarsamtök með öfluga ástralska háskóla sem bakhjarla. Þetta eru einu samtökin sem fram til þessa hafa umhverfisvottað starfsemi sveitarfélaga en þau votta einnig starfsemi fyrirtækja.
Meginmarkmið umhverfisvottunar á vöru eða starfsemi, hvort heldur er um að ræða vottun frá Svaninum, EarthCheck eða öðrum vottunaraðila, er að óháður úttektaraðili geti staðfest að viðkomandi, í þessu tilfelli sveitarfélög, leitist við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif en tryggja jafnframt gæði. Umhverfismerkingar auðvelda þannig hinum meðvitaða neytanda val á vöru og þjónustu.
Hvers vegna getum við á Snæfellsnesi ekki bara verið eins og hinir? Af hverju þurfum við endilega að vera að sækjast eftir vottun? Er þetta ekki bara óþarfa vesen? Hver er ávinningurinn?
Þátttaka í vottunarferli stuðlar að bættri gæðastjórnun með því að auka gegnsæi upplýsinga, bæta verk- og pappírsferla og gefa betra yfirlit yfir notkun náttúruauðlinda. Krafan um úttekt þriðja aðila felur í sér mun meira aðhald og eftirfylgni en til dæmis í hefðbundinni Staðardagskrárvinnu. Við fáum haldbærar upplýsingar um frammistöðu og er kerfið því líklegra til þess að skila raunverulegum árangri í átt til sjálfbærni. Árangur er metinn af óháðum aðila og þarf að standast skilgreinda staðla og viðmið og eykur þannig trúverðugleika sjálfbærnivinnu sveitarfélaganna. Umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila með þekktu umhverfismerki felur í sér ný og fjölbreytt tækifæri til landkynningar og markaðssetningar. Vottun styður þannig við ýmsar atvinnugreinar, sér í lagi ferðaþjónustu og framleiðslugreinar.
Þegar saman kemur fólk sem vinnur að umhverfismálum íslenskra sveitarfélaga er augljóst hversu mikla athygli og virðingu Snæfellsnes hefur hlotið fyrir frumkvæði og forystu í þessum málaflokki. Það er því greinilegt að áhugi fyrir verkefninu er mikill og hafa sveitarfélög á Vestfjörðum og á Vesturlandi sýnt áhuga á að feta í fótspor Snæfellinga. Það verður þó aldrei af okkur tekið að við vorum fyrst.
Í næsta greinarstúf verður fjallað um það sem áunnist hefur við umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.
Theódóra Matthíasdóttir (theo@nsv.is), umhverfisfulltrúi Snæfellsness