Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi boðaði til fundar ferðaþjónustuaðila á Snæfellsnesi þann 29. október síðastliðinn. Vel var mætt á fundinn þar sem farið varið yfir ýmis málefni tengd ferðaþjónustu á Snæfellsnesi. Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins, kynnti fyrir fundarmönnum Gestahöfn Snæfellsness og öryggiskort Safe Travel á Breiðabliki. Guðrún Magnea, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness, hélt fyrirlestur um samfélagslega ábyrgð. Að fundi loknum fóru flestir fundarmenn í rútuferð með leiðsögn um allt Snæfellsnes með áherslu á þá þjónustu og áfangastaði sem í boði eru á Snæfellsnesi.

Ragnhildur, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins, kynnir Gestahöfn Snæfellsness og öryggiskort Safe Travel á Snæfellsnesi

Fundir sem þessir, þar sem ýmsir aðilar tengdir ferðaþjónustu koma saman, eru mjög mikils virði fyrir alla hagsmunaaðila á Snæfellsnesi. Fundirnir auka upplýsingaflæði og auðvelda fyrir að samhæfa aðgerðir á svæðinu. Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi boðar reglulega til samhristings ferðaþjónustuaðila á Snæfellsnesi og ættu allir sem eiga erindi að koma og taka þátt. Heimasíða Svæðisgarðsins kom nýlega í loftið og eru íbúar hvattir til þess að fylgjast vel með því sem þar fer fram: https://www.snaefellsnes.is/ 

Guðrún Magnea, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness, kynnir samfélagslega ábyrgð

Deila