Af hverju umhverfisvottun?

Virk þátttaka sveitarfélaga

Sveitarfélög sem vilja bæta frammistöðu sína í umhverfislegu tilliti geta gert það á margvíslegan hátt án þess að leita eftir vottun. Hefur sú leið að fá umhverfisvottun á starfsemi sína eitthvað fram yfir aðrar leiðir?

Sveitarfélög geta dregið úr sóun og mengun með fjölmörgum aðgerðum og náð góðum árangri á ákveðnum sviðum án þess að skarta umhverfisvottun. Þau geta t.d. gert það með virkri þátttöku í verkefnum eins og Heimsmarkmiðunum, Grænum skrefum eða einfaldlega á eigin vegum og eigin forsendum. Því er eðlilegt að spyrja sig hvort sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun hafi eitthvað upp á að bjóða umfram aðrar leiðir. Lykilatriði í viðurkenndu vottunarferli tekur m.a. til úttektar og mats óháðs aðila á árangri þess sem leitast eftir að fá vottun. Þetta er mjög mikilvægt atriði og felast ótvíræðir kostir í því að byggja upp sjálfbærari lífs- og starfshætti með vottun óháðs þriðja aðila:

  • Trúverðugleiki. Þar sem mælanlegur árangur er metinn af óháðum aðila og þarf að standast skilgreinda staðla og viðmið er tryggt að sá árangur sem haldið er fram að hafi náðst sé raunverulegur en ekki eingöngu huglægur.
  • Gæðastjórnun. Þátttaka í vottunarferli tryggir nákvæma skráningu auðlindanotkunar og eykur gagnsæi upplýsinga. Hún bætir þannig verk- og pappírsferla og gefur betra yfirlit um notkun náttúruauðlinda. Hún stuðlar því að bættri gæðastjórnun, sem auðveldar eftirlit með breytingum og viðbrögð þar sem úrbóta er þörf.
  • Aðhald og eftirfylgni. Árleg úttekt vottunaraðila tryggir aðhald, eftirfylgni og haldbærar upplýsingar um frammistöðu. Kerfið er því líklegra til að skila raunverulegum skrefum í átt að sjálfbærni.

Af þessu sést að sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun getur haft margt fram yfir aðrar leiðir. Að auki má nefna að umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila getur tvímælalaust bætt ímynd þess sem vottað er og falið í sér ný og fjölbreytt tækifæri til kynningar og markaðssetningar.

EarthCheck umhverfisvottun

EarthCheck (áður Green Globe) er eini viðurkenndi vottunaraðilinn sem þróað hefur staðla sem hægt er að nota til vottunar á starfsemi sveitarfélaga. Mögulega munu fleiri viðurkenndir umhverfisvottunaraðilar, s.s. Svanurinn eða Evrópublómið, þróa svæðisstaðla en eins og staðan er í dag er þetta eini valkosturinn sem stendur til boða fyrir sveitarfélög sem vilja fá umhverfisvottun. Að baki EarthCheck standa öflugir aðilar, m.a. háskólar og ferðamálasamtök. Staðlar samtakanna taka mið af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Tekið skal fram að alþjóðlegi staðallinn ISO 14001 um umhverfisstjórnun jafngildir ekki umhverfisvottun. Hann nær yfir stefnumótun og markmiðssetningu varðandi umhverfisþætti en felur ekki í sér beinar viðmiðunarreglur um umhverfislega frammistöðu.

Deila
15/09/2012