Af hverju umhverfisvottun?

Virk þátttaka sveitarfélaga

Sveitarfélög sem vilja bæta frammistöðu sína í umhverfislegu tilliti geta gert það á margvíslegan hátt án þess að leita eftir vottun. Hefur sú leið að fá umhverfisvottun á starfsemi sína eitthvað fram yfir aðrar leiðir?

Sveitarfélög geta dregið úr sóun og mengun með fjölmörgum aðgerðum og náð góðum árangri á ákveðnum sviðum án þess að skarta umhverfisvottun. Þau geta t.d. gert það með virkri þátttöku í verkefnum eins og Heimsmarkmiðunum, Staðardagskrá 21, Grænum skrefum eða einfaldlega á eigin vegum og eigin forsendum. Því er eðlilegt að spyrja sig hvort sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun hafi eitthvað upp á að bjóða umfram aðrar leiðir. Lykilatriði í viðurkenndu vottunarferli tekur m.a. til úttektar og mats óháðs aðila á árangri þess sem leitast eftir að fá vottun. Þetta er mjög mikilvægt atriði og felast ótvíræðir kostir í því að byggja upp sjálfbærari lífs- og starfshætti með vottun óháðs þriðja aðila:

 • Trúverðugleiki. Þar sem mælanlegur árangur er metinn af óháðum aðila og þarf að standast skilgreinda staðla og viðmið er tryggt að sá árangur sem haldið er fram að hafi náðst sé raunverulegur en ekki eingöngu huglægur.
 • Gæðastjórnun. Þátttaka í vottunarferli tryggir nákvæma skráningu auðlindanotkunar og eykur gagnsæi upplýsinga. Hún bætir þannig verk- og pappírsferla og gefur betra yfirlit um notkun náttúruauðlinda. Hún stuðlar því að bættri gæðastjórnun, sem auðveldar eftirlit með breytingum og viðbrögð þar sem úrbóta er þörf.
 • Aðhald og eftirfylgni. Árleg úttekt vottunaraðila tryggir aðhald, eftirfylgni og haldbærar upplýsingar um frammistöðu. Kerfið er því líklegra til að skila raunverulegum skrefum í átt að sjálfbærni.

Af þessu sést að sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun getur haft margt fram yfir aðrar leiðir. Að auki má nefna að umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila getur tvímælalaust bætt ímynd þess sem vottað er og falið í sér ný og fjölbreytt tækifæri til kynningar og markaðssetningar.

Staðall EarthCheck

EarthCheck er viðurkenndur vottunaraðili með höfuðstöðvar í Ástralíu sem þróað hefur staðal sem hægt er að nota til vottunar á starfsemi sveitarfélaga. Að baki EarthCheck standa öflugir aðilar, m.a. háskólar og ferðamálasamtök. Staðlar samtakanna taka mið af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Tekið skal fram að alþjóðlegi staðallinn ISO 14001 um umhverfisstjórnun jafngildir ekki umhverfisvottun. Hann nær yfir stefnumótun og markmiðssetningu varðandi umhverfisþætti en felur ekki í sér beinar viðmiðunarreglur um umhverfislega frammistöðu.

EarthCheck sjá um að votta samfélög og ferðaþjónustuaðila og veita þeim umhverfismerki ef þau standast kröfur. Þau eru einu samtökin sem fram til þessa hafa umhverfisvottað starfsemi sveitarfélaga sem byggir á hugmyndafræði Staðardagskrár 21 um ábyrga stjórnun og sjálfbæra þróun, en til verkefnisins var stofnað með stuðningi Alþjóða ferðamálaráðsins og Alþjóða ferðamálasamtakanna árið 1994. EarthCheck umhverfismerkið er notað á ferðaþjónustufyrirtæki og ferðaáfangastaði sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. Merkið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er stærsti vottunaraðili ferðaþjónustunnar, enda hafa samtökin vottað meira en 1100 aðila í yfir 65 þjóðlöndum í öllum heimsálfum. Erlendis er því um þekkt og traust umhverfismerki að ræða.

Staðallinn sem vottunarsamtökin vinna eftir veitir samfélögum ramma til þess að mæla frammistöðu sína og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum. Hann byggir á sex meginstoðum:

 1. Trygg stjórn samfélagsins og vottunarkerfisins.
 2. Gildandi lögum og reglugerðum er fylgt í hvívetna.
 3. Sjálfbærnistefna í umhverfis- og samfélagsmálum.
 4. Framkvæmdaáætlun til fimm ára í senn, sem er endurskoðuð árlega.
 5. Skráningar- og vöktunarkerfi til að fylgjast með árlegri frammistöðu á 12 lykilsviðum.
 6. Öflugt samráð við alla hópa samfélagsins, þannig að allir eigi þess kost að taka þátt í stefnumótuninni og koma athugasemdum á framfæri. Einnig er sett upp og framfylgt kynningaráætlun um framgang verkefnisins.

Þegar um vottun sveitarfélags er að ræða tekur vottunin til starfsemi sveitarfélagsins sjálfs, það er starfsemi stofnana og verkefna sem eru á þess vegum og ábyrgð. Vottunarferlið tekur ekki til fyrirtækja eða stofnana á vegum einkaaðila eða ríkis, sem staðsett eru í viðkomandi sveitarfélagi, að öðru leyti en að fjöldi umhverfisvottaðra fyrirtækja í sveitarfélaginu getur talist til tekna í vottunarferlinu og sumir sjálfbærnivísarnir byggja á mælingum á notkun allra íbúa á auðlindum, svo sem vatni og orku, og losun allra íbúa á úrgangi.

Að hljóta EarthCheck umhverfisvottun

Umsækjendur um umhverfisvottun EarthCheck ganga í gegnum þríþætti ferli:

 1. Skráning í vottunarkerfi EarthCheck. Undirbúningur að næsta ferli, stefnumótun og fleira.
 2. Mælingar á tölulegum vísum og gerð framkvæmdaáætlunar. Eftir mælingar í eitt ár eru niðurstöður sendar til vottunarsamtakanna, sem meta hvort lágmarksviðmiðum hafi verið mætt. Ef svo er fer verkefnið í þriðja þrepið.
 3. Vottun frá EarthCheck. Viðurkenndur óháður vottunaraðili tekur starfsemina út og kannar hvort stöðlum EarthCheck sé mætt og hvort framkvæmdaáætlun sé uppfyllt. Sé svo, er veitt vottun til eins árs í senn. Vottun felur ekki í sér að viðkomandi aðili hafi náð fullkomnun heldur að hann hafi uppfyllt grunnviðmið og skuldbindi sig til að vinna að stöðugum úrbótum.

Ávinningur af þátttöku

Hvers vegna ættu sveitarfélög yfirleitt að huga að úrbótum í umhverfismálum? Ástæðum þess má skipta gróflega í þrennt:

 1. Vegna umhverfisins sjálfs. Maðurinn hefur með athöfnum sínum mjög víða skaðað umhverfi sitt til lengri eða skemmri tíma. Vistkerfi eru víða undirstaða menningar mannsins og grundvöllur þeirra lífsgæða sem við nú njótum. Ef áfram verður haldið án þess að umgengni við umhverfi batni lítur hins vegar út fyrir að ýmis vistkerfi gætu verulega látið á sjá eða jafnvel hrunið t.d. vegna gróðurhúsaáhrifa, mengunar og eyðingar náttúrulegra búsvæða.
 2. Til að spara í rekstri. Það að vera umhverfisvænn er í raun það sama og að fara sparlega með auðlindir. Þegar litið er til lengri tíma (og oft einnig til styttri tíma) jafngildir það að vera umhverfisvænn því að spara í rekstri.
 3. Til markaðssetningar. Sífellt fleiri ferðamenn leggja mikið upp úr því að ferðaþjónustuaðilar gangi vel um umhverfið. Vottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi er því mikið tækifæri til markaðssetningar í ferðaþjónustu en einnig mögulega í öðrum greinum, s.s. sjávarútvegi.
Deila