Þann 24. mars næstkomandi verður hinn árlegi og alþjóðlegi viðburður Earth Hour, eða Jarðarstund, haldinn í 11. skipti. Þá munu milljónir jarðarbúa koma saman í fjölmörgum löndum, til þess að vekja athygli á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Í tilefni Jarðarstundar munu merk mannvirki víðs vegar um heim standa óupplýst og í einhverjum tilfellum munu sveitar- og ríkisstjórnir, samtök, fyrirtæki og stofnanir standa fyrir viðburðum án rafmagns, í myrkri eða yfir kertaljósum. Viðburðunum er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þægindi nútímans og þann umhverfislega kostnað sem þau hafa í för með sér. Að við lítum í eigin barm og íhugum hvað við getum gert til að minnka neikvæð áhrif okkar sjálfra á umhverfið.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, í samstarfi við RARIK, munu taka þátt í Jarðarstundinni með því að slökkva á götuljósum milli klukkan 20:30 og 21:30 sem og ljósum í stofnunum sínum. Sveitarfélögin hafa áður tekið þátt með svipuðum hætti með jákvæðum viðtökum íbúa. Hvatt er til þess að íbúar taki einnig þátt með því að slökkva á rafmagnsljósum, tölvum, símum, sjónvörpum o.þ.h. á heimilum sínum á sama tíma. Jarðarstund gefur okkur kærkomið tækifæri til að njóta stundar án áreitis nútímasamfélags, t.d. með fólkinu sem stendur okkur næst, sem og að huga að loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Mannfólkið í hinum vestræna heimi er háð orkunotkun allan sólarhringinn, hvort sem það er til að lýsa rými eða götu, hlaða síma, tölvu eða bíl eða til kyndingar. Á Íslandi er orkunotkun heimilanna umhverfisvænni m.t.t. loftslagsbreytinga en almennt gengur og gerist erlendis. Þrátt fyrir það ættum við að leitast við að nýta auðlindir í hófi, bera virðingu fyrir þeim og stefna að aukinni sjálfbærni. Sama hversu umhverfisvæn orkunotkun er talin vera, þá hefur öll orkuframleiðsla einhver neikvæð umhverfisáhrif í för með sér.

 

Við megum heldur ekki gleyma okkur sjálfum, en með aukinni tækjanotkun missum við stundum sjónar á því sem mestu máli skiptir, s.s. mannlegum tengslum, heilsu og óspilltri náttúru. Heilbrigðir og hamingjusamir íbúar eru mikilvæg auðlind fyrir sjálfbært samfélag. Ein jarðarstund er stuttur tími, en þann tíma skulum við gefa okkur til að njóta þess sem við höfum og finna fyrir því hve mikil áhrif orkunotkun hefur á daglegt líf okkar.

Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness

Meira um viðburðinn má finna á heimasíðu Earth Hour, á Facebook síðu Earth Hour Snæfellsness eða á Umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness.

Deila