30. APRÍL 2023

Allir dagar eru plokkdagar, en einu sinni á ári er stóri plokkdeginum fagnað til að vekja athygli á mikilvægi þess að fjarlægja rusl úr náttúrunni og að við mannfólkið öxlum ábyrgð á neysluvenjum okkar. Við á Snæfellsnesi örkum að sjálfsögðu út á sunnudaginn með poka í hönd.

NOKKUR HEILRÆÐI FYRIR PLOKKARA

  • Rusl safnast í grindverkum, limgerði og runnum, mólendi og við vötn og í fjörum – þetta eru tilvalin svæði til að taka til hendinni.
  • Veljum ákveðin svæði til að plokka – hvort sem það er í kringum húsið, í hverfinu, eða falleg gönguleið. Á kortunum hér fyrir neðan verður hægt að sjá svæði sem henta til að plokka og vitað er að rusl á til að safnast.
  • Verum vel búin eftir veðri og með góða hanska, skó og jafnvel ruslatínu.
  • Komum ruslinu á gámasvæðin eða þar sem sveitarfélögin taka við ruslinu. Munum að setja það í lokaða poka.
  • Gæta varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti eiga sig og ávallt að láta fullorðna vita ef að slíkt finnst.
  • Njótum náttúrunnar og samverunnar með fjölskyldunni

Ýmist eru skipulagðir plokk-viðburðir eða almenn hvatning um plokk á Snæfellsnesi, hér er allt sem þú þarft að vita:

Snæfellsjökulsþjóðgarður – plokk með landvörðum í friðlandinu við Hellnafjöru

Landverðir Snæfellsjökulsþjóðgarðs bjóða fólki með að plokka í Hellnafjöru kl. 11:00 á sunnudaginn. Að plokki loknu verður þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur. Allt um viðburðinn má finna hér.

Landverðir bjóða í plokk í Hellnafjöru, mynd Snorri Gunnarsson.

Grundarfjörður

Íbúar í Grundarfirði eru hvattir til að plokka í sveitarfélaginu. Ekki verður skipulagður viðburður, en af nógu er að taka. Á bókasafninu og í Ráðhúsi verður hægt að fá lánaðar plokktangir, fyrir þau sem vilja prófa slíkt. Ruslakar verður fyrir utan gámastöðina við Ártún og mögulega víðar, þar sem fólk getur losað sig við ruslið sem það tínir. Allt um plokk í Grundarfirði má lesa hér.

Plokksvæði í Grundarfirði
Hér má sjá svæði þar sem rusl á til að safnast í Grundarfirði.

Sveitarfélagið Stykkishólmur

Íbúar í Stykkishólmi eru hvattir til að plokka á þeim svæðum sem eru merkt á kortinu hér að neðan – eða hvar sem hentar! Gámur verður staðsettur fyrir utan gámasvæðið snoppu fyrir þau sem vilja losa sig við ruslið. Einnig verður hægt að skilja rusl eftir bakvið áhaldahúsið. Mikilvægt er að loka pokunum. Meira um plokk í sveitarfélaginu má nálgast hér.

Það má finna nóg af rusli meðfram þjóðveginum frá hesthúsunum að Ögri.
Rusl á til að safnast á svæðum merkt á kortinu.

Snæfellsbær

Fyrir utan skipulagt plokk í Hellnafjöru geta íbúar Snæfellsbæjar notið þess að plokka nær þéttari byggðum, hvort sem farið verður út í garð, við ósina á Rifi eða reiðstíginn í Ólafsvík. Á kortunum fyrir neðan má sjá svæði þar sem rusl á til að safnast og íbúar hvattir til að taka til hendinni þar. Hægt verður að skilja sorp eftir við áhaldahúsið í Ólafsvík og gömlu slökkvistöðina á Hellissandi. Athugið að allt sorp verður að vera í lokuðum pokum. Upplýsingar um plokk í Snæfellsbæ má nálgast hér.

Svæði á Hellissandi sem rusl á til að safnast.
Í Krossavík finnst rusl.
Það væri frábært ef hægt væri að fjarlægja allt rusl við ósina í Rifi áður en fuglarnir koma sér fyrir.
Hér má finna svæði sem rusl á til að safnast í Ólafsvík.
Hér má finna svæði sem rusl á til að safnast í Ólafsvík.

Eyja- og Miklaholtshreppur

Sveitarfélagið hvetur íbúa til að plokka í sínu nærumhverfi, hvort sem það er heima eða annars staðar.

Deila