Fáninn afhentur við hátíðlega athöfn

Þann 8. nóvember sl. var Grænfáninn dreginn að hún í Laugagerðisskóla í annað sinn. Í tilefni dagsins höfðu krakkarnir sett upp leikþætti fyrir gesti og aðra nemendur og hópur nemenda söng “Ísland er land þitt” eftir Magnús Þór Sigmundsson. Atriðum nemenda lauk með ljúfum blokkflautu- og gítartónum. Áslaug Sigvaldadóttir, verkefnisstjóri Grænfánans í Laugagerðisskóla, og Kristín Björk Guðmundsdóttir, skólastjóri, tóku við alþjóðlegu skírteini til marks um góðan árangur í umhverfismennt í skólanum og nemendur í umhverfisnefnd skólans tóku við sjálfum Grænfánanum. Gengið var fylktu liði út að fánastönginni þar sem fáninn var dreginn að hún. Á eftir var fagnað yfir gómsætum vöfflum.

Deila