Frétt og ljósmynd af vef Lýsuhólsskóla

Í gær, þann 30. maí, var nýr Grænfáni dreginn að húni við Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla. Þetta er í þriðja sinn sem skólinn fær þessa viðurkenningu en Grænfáni er fjölþjóðleg viðurkenning fyrir gott umhverfisstarf í skólum. Landvernd heldur utan um verkefnið á Íslandi og fulltrúar Landverndar afhentu fánann.

Í tilefni dagsins var haldin hátíð þar sem nemendur fluttu leik- og söngþátt um sólkerfið okkar, sögðu frá umhverfisstarfi í skólanum og sýndu stuttmynd sem gerð var á skólaárinu og byggir á fyrstu sögulegu heimildum um Lýsuhólslaug.

Fjölmargar sýningar voru í húsakynnum skólans, tengdar list- og verkgreinum, námsverkefnum og umhverfismálum.

Kaffiveitingar voru í boði foreldra.

Nemendur og starfsfólk skólans þakka öllum þeim sem veitt hafa skólanum athygli og stuðning og þeim gestum sem komu til að samgleðjast á þessum degi.

Deila