Frábær þátttaka var á strandhreinsun á Snæfellsnesi um helgina. Strandhreinsunarverkefnið var hluti af Norræna strandhreinsideginum, en hreinsanir voru einnig á tveim öðrum landsvæðum.

Á Snæfellsnesi var hreinsað á fjórum svæðum í góðu veðri: við Grundarkamp í Grundarfirði, Fúluvík og nágrenni í Stykkishólmi og á tveim svæðum í Snæfellsbæ; á Hraunlandarifi við Breiðavík og Beruvík í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Alls tóku þátt um 100 manns, bæði Snæfellingar og gestir, og skemmtu sér vel. Gróft áætlað var heildarmagn þess rusls sem fjarlægt var úr náttúru Snæfellsness þennan dag um tíu tonn. Mest bar á netadræsum og plastbútum, stórum og smáum, og var hluti þeirra augljóslega búinn að vera lengi úti í náttúrunni.

Ávinningur verkefnisins er töluverður og þá sérstaklega fyrir fugla og annað dýralíf, en einnig fyrir okkur sjálf, ásýnd svæðisins og náttúruna. Mikilvægt er að við girðum fyrir losun sorps út í náttúruna og að við höldum áfram að vera dugleg að hreinsa landið okkar. Þannig verndum við okkar dýrmætu náttúru og njótum útivistar betur.

Hér má sjá nokkrar myndir af afrekunum þennan sólríka dag:

 

 

Deila