Umhverfisvottun Snæfellsness

Umhverfisvottun Snæfellsness

Um aldamótin síðustu ákváðum við Snæfellingar sameiginlega að standa vörð um umhverfið. Við ákváðum að hvert lítið skref skipti máli – mikilvægast væri að byrja að stíga þau. Sveitarfélögin fimm á svæðinu mynduðu með sér bandalag og hófu að gera umbætur í starfsemi sinni og miðla fræðslu til íbúa. Árið 2003 hófu sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, umfangsmikla undirbúningsvinnu að umhverfisvottun EarthCheck samtakanna fyrir að vera umhverfismeðvitað samfélag sem vinnur að lausnum í átt til sjálfbærari starfshátta. Vinna fyrstu ára var flókin og tímafrek þar sem um frumkvöðlaverkefni var að ræða. Þann 8. júní 2008 hlaut Snæfellsnes loks umhverfisvottun við hátíðlega athöfn að viðstöddum forseta Íslands, þingmönnum, sveitarstjórnarfólki og fjölda gesta. Áfanginn vakti verðskuldaða athygli innan lands sem utan þar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og fjórða samfélagið í heiminum öllum.

Til þess að viðhalda vottuninni er stöðugra úrbóta í umhverfis- og samfélagsmálum krafist og árlega er svæðið tekið út af óháðum aðila vegna endurnýjunar á vottun. Síðast fékkst vottunin endurnýjuð árið 2018.

Mikilvæg framfaraskref hafa náðst, en margt viljum við þó gera enn betur. Markmiðið er skýrt; að axla ábyrgð á neysluvenjum okkar og draga úr þeim áhrifum sem við höfum á umhverfið. Snæfellsnes er einstakt svæði, ríkt af auðlindum og einstökum náttúruperlum, sem við viljum gæta. Þátttaka í vottunarverkefninu hefur sannarlega skilað árangri innan sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, auk þess sem viðamikill þekkingarbanki hefur orðið til á svæðinu, sem önnur sveitarfélög í sömu hugleiðingum geta leitað í. Verkefnið felur í sér talsverða nýsköpun og er mikilvægur vaxtarbroddur fyrir samfélagið. Ferðaþjónusta og matvælaframleiðsla er sú atvinnustarfsemi sem hefur hvað mestan fjárhagslegan hag af verkefninu en þessar atvinnugreinar bjóða jafnframt upp á hvað flest sóknarfæri við núverandi aðstæður.

Markmið og sjálfbærnistefna

Hluti af EarthCheck vottunarverkefninu sem sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi standa að felst í því að sættast á sameiginlega stefnumótun í stefnumótun í sjálfærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi. Stefnumótunin leggur síðan grunninn að framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin og aðilar innan þeirra fylgi sameiginlega eftir. Stefnan er endurskoðuð árlega og samþykkt af forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

02/08/2012