Umhverfisvottun Snæfellsness

Sagan

Árið 2003 hófu sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, umfangsmikla undirbúningsvinnu að umhverfisvottun EarthCheck (þá Green Globe) samtakanna fyrir að vera umhverfismeðvitað samfélag sem vinnur að lausnum í átt til sjálfbærari starfshátta. Vinna fyrstu ára var flókin og tímafrek þar sem um frumkvöðlaverkefni var að ræða. Þann 8. júní 2008 hlaut Snæfellsnes loks umhverfisvottun við hátíðlega athöfn að viðstöddum forseta Íslands, þingmönnum, sveitarstjórnarfólki og fjölda gesta. Áfanginn vakti verðskuldaða athygli innan lands sem utan þar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og fjórða samfélagið í heiminum öllum.

Til þess að viðhalda vottuninni er stöðugra úrbóta í umhverfis- og samfélagsmálum krafist og árlega er svæðið tekið út af óháðum aðila vegna endurnýjunar á vottun. Nú síðast fékkst vottunin endurnýjuð í febrúar 2012.

Þátttaka í vottunarverkefninu hefur sannarlega skilað árangri innan sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, auk þess sem viðamikill þekkingarbanki hefur orðið til á svæðinu, sem önnur sveitarfélög í sömu hugleiðingum geta leitað í. Verkefnið felur í sér talsverða nýsköpun og er mikilvægur vaxtarbroddur fyrir samfélagið. Ferðaþjónusta og matvælaframleiðsla er sú atvinnustarfsemi sem hefur hvað mestan fjárhagslegan hag af v erkefninu en þessar atvinnugreinar bjóða jafnframt upp á hvað flest sóknarfæri við núverandi aðstæður.

Markmið og stefna

Hluti af EarthCheck vottunarverkefninu sem sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull standa að felst í því að sættast á sameiginlega stefnumótun í sjálfbærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi með aðaláherslu á ferðaþjónustu. Stefnumótunin leggur síðan grunninn að framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin og aðilar innan þeirra fylgi sameiginlega eftir. Stefnan er endurskoðuð árlega og samþykkt af forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

Hér má sækja sameiginlega stefnu sveitarfélaga á Snæfellsnesi um sjálfbæra þróun í umhverfis- og samfélagslegu tilliti.

Framkvæmdaáætlun

Annar þáttur sem snemma þurfti að huga að þegar við upphaf verkefnisins var framkvæmdaáætlun fyrir Snæfellsnesið. Framkvæmdaáætlun gefur sveitarfélögunum tækifæri til þess að vinna skipulega að úrbótum í samfélaginu og gefur vottunaraðilum möguleika á að fygljast grannt með framförum. Við úttekt á svæðinu er meðal annars skoðað hvort settum verkefnum í framkvæmdaáætlun hafi verið framfylgt.

Ætlast er til þess að framkvæmdaáætlun sé endurskoðuð árlega og samþykkt af Framkvæmdaráði Snæfellsness. Vegna bágrar fjárhagsstöðu síðustu ára hefur lítill tími gefist til þess upp á síðkastið. Nú er unnið að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar fyrir árin 2012-2017.

Framtíðin

Stefna umhverfisvottunarverkefnis EarthCheck á Snæfellsnesi er sterk. Markmið næstu mánaða og ára miða að því að gera enn betur í umhverfis- og samfélagsmálum með aðstoð vottunarkerfisins. Unnið verður í átt að enn sjálfbærara samfélagi meðal annars með eftirfarandi markmið í huga, auk ýmissa annarra sem ekki verða hér upp talin:

  • Að orkunotkun á hvern íbúa á svæðinu verði sem minnst, að orkunýting verði eins góð og kostur er, að hlutfall endurnýjanlega orkugjafa verði sem hæst og að íbúar, fyrirtæki og opinberir aðilar verði meðvitaðir um leiðir til orkusparnaðar og beiti þeim eftir föngum.
  • Að sérstæð og viðkvæm náttúra Snæfellsness verði vernduð með friðun og öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum, um leið og heimamönnum og ferðamönnum er sköpuð aðstaða til að upplifa þessa náttúru.
  • Að á Snæfellsnesi sé rekin öflug ferðaþjónusta í sátt við umhverfi og samfélag. Vilji og metnaður ferðaþjónustufyrirtækja á þessu sviði sé staðfestur með óháðri vottun.
  • Að á Snæfellsnesi sé unnið eftir sameiginlegu heildarskipulagi um nýtingu svæðisins til ferðaþjónustu.
  • Að Snæfellsnes verði vörumerki sem þekkt er fyrir tengsl sín við sjálfbæra ferðamennsku og sjálfbæra þróun.
  • Að ný atvinnutækifæri skapist fyrir heimamenn á Snæfellsnesi í tengslum við sjálfbæra ímynd svæðisins, svo sem við framleiðslu minjagripa, náttúru- og heilsuafurða og ræktun og framleiðslu lífrænna matvæla, enda byggi öll vöruþróun á þessari sömu ímynd.
  • Að hvetja einkarekin fyrirtæki til þess að nýta sér EarthCheck vottun svæðisins betur og ýta undir að þau sæki um umhverfisvottun.

Þessum markmiðum sem hér hafa verið talin upp verður einna helst náð með þátttöku íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að leggja megináherslu á almenna umhverfisfræðslu til íbúa Snæfellsness um hvernig draga megi úr áhrifum mannsins á umhverfi sitt.