Markmið & framkvæmdaáætlun

Markmið

Hluti af EarthCheck vottunarverkefninu sem sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi standa að felst í því að sættast á sameiginlega stefnumótun í sjálfbærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi með aðaláherslu á ferðaþjónustu. Stefnumótunin leggur síðan grunninn að framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin og aðilar innan þeirra fylgi sameiginlega eftir. Stefnan er endurskoðuð árlega og samþykkt af forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

Markmið næstu mánaða og ára miða að því að gera enn betur í umhverfis- og samfélagsmálum með aðstoð vottunarkerfisins. Unnið verður í átt að enn sjálfbærara samfélagi meðal annars með eftirfarandi markmið í huga, auk ýmissa annarra sem ekki verða hér upp talin:

  • Að minnka sorpmyndun og auka endurvinnslu á svæðinu. Öll sveitarfélögin eru nú þegar með endurvinnslutunnur við heimili og stofnanir, ýmist tvær tunnur eða þrjár. Næsta skref er að öll sveitarfélögin séu með þriggja tunnu flokkun og verður farið í þær framkvæmdir á næstu árum.
  • Að orkunotkun á hvern íbúa á svæðinu verði sem minnst, að orkunýting verði eins góð og kostur er, að hlutfall endurnýjanlega orkugjafa verði sem hæst og að íbúar, fyrirtæki og opinberir aðilar verði meðvitaðir um leiðir til orkusparnaðar og beiti þeim eftir föngum.
  • Að sérstæð og viðkvæm náttúra Snæfellsness verði vernduð með friðun og öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum, um leið og heimamönnum og ferðamönnum er sköpuð aðstaða til að upplifa þessa náttúru.
  • Að aðalskipulag sveitarfélaganna sé miðað út frá sjálfbærnimarkmiðum.
  • Að á Snæfellsnesi sé rekin öflug ferðaþjónusta í sátt við umhverfi og samfélag. Vilji og metnaður ferðaþjónustufyrirtækja á þessu sviði sé staðfestur með óháðri vottun.
  • Að á Snæfellsnesi sé unnið eftir sameiginlegu heildarskipulagi um nýtingu svæðisins til ferðaþjónustu.
  • Að Snæfellsnes verði vörumerki sem þekkt er fyrir tengsl sín við sjálfbæra ferðamennsku og sjálfbæra þróun.
  • Að ný atvinnutækifæri skapist fyrir heimamenn á Snæfellsnesi í tengslum við sjálfbæra ímynd svæðisins, svo sem við framleiðslu minjagripa, náttúru- og heilsuafurða og ræktun og framleiðslu lífrænna matvæla, enda byggi öll vöruþróun á þessari sömu ímynd.
  • Að hvetja einkarekin fyrirtæki til þess að nýta sér EarthCheck vottun svæðisins betur og ýta undir að þau sæki um umhverfisvottun.

Þessum markmiðum sem hér hafa verið talin upp verður einna helst náð með þátttöku íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að leggja megináherslu á almenna umhverfisfræðslu til íbúa Snæfellsness um hvernig draga megi úr áhrifum mannsins á umhverfi sitt.

Framkvæmdaáætlun
This image has an empty alt attribute; its file name is Framkvaemdaaaetlun-2023-2027.pdf-212x300.png

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru með sameiginlega framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára til þess að vinna skipulega að úrbótum í samfélaginu. Framkvæmdaáætlunin verður að taka mið af frammistöðu síðastliðinna ára og svæðisbundnum áhættuþáttum. Frammistöðuna höfum við í eldri frammistöðu- og úttektarskýrslum. Áhættuþættir eru svæðisbundnir og eiga að vera metnir út frá samfélagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum einkennum svæðisins. Í framkvæmdaáætluninni eru verkefni sem farið verður í á næstu árum en næsta ár er alltaf nákvæmast.

Við úttekt á svæðinu er meðal annars skoðað hvort settum verkefnum í framkvæmdaáætlun hafi verið framfylgt. Ætlast er til þess að framkvæmdaáætlun sé endurskoðuð og uppfærð árlega og samþykkt af Byggðasamlagi Snæfellinga.  Hér má finna Framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi 2023-2027.

03/08/2012