Aðstandendur verkefnisins

Umhverfisvottunarverkefni sveitarfélaganna á Snæfellsnesi er stýrt af Byggðasamlagi Snæfellinga. Í því sitja þeir fjórireinstaklingar, sem á hverjum tíma gegna stöðu bæjarstjóra eða oddvita í hverju af sveitarfélögunum fjórum. Umboð sitt til ákvarðanatöku sækir hver meðlimur ráðsins til sinnar sveitarstjórnar. Ráðið kýs sér formann við upphaf kjörtímabils sveitarstjórna og starfar samkvæmt erindisbréfi. Þau sveitarfélög sem eiga aðild að verkefninu eru: Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur.

Frá árinu 2005 hefur Náttúrustofa Vesturlands (NSV) sinnt daglegum rekstri verkefnisins skv. þjónustusamningi við Byggðasamlagið. Starfsmaður verkefnisins ber starfsheitið verkefnastjóri umhverfisvottunar og hefur verið í 25-100% starfshlutfalli, allt eftir ákvörðunum Byggðasamlagsins og fjárhag verkefnisins hverju sinni. Helstu hlutverk starfsmannsins eru m.a. að vinna að áætlanagerð, aðstoða sveitarfélögin við að hrinda í framkvæmd verkefnum á framkvæmdaáætlun vottunarverkefnisins og fylgja eftir að þau séu kláruð, stýra skráningu upplýsinga vegna mælinga sjálfbærnivísa, skila viðmiðunartölum árlega til EarthCheck og vinna að öðrum verkefnum til að mæta skilyrðum EarthCheck um áframhaldandi vottun. Verkefnastjóri hefur samráð við og faglega aðstoð frá sínum yfirmönnum á NSV og undirbýr og situr fundi Byggðasamlagsins ásamt því að vinna að framfylgd stefnu þess. Starfsfólk sveitarfélaganna skráir og heldur utan um tölulegar upplýsingar vegna sjálfbærnivísa og sendir þær til verkefnastjóra árlega eða oftar.

Verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness, Guðrún Magnea Magnúsdóttir (gudrun@nsv.is) er starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands og sér um að verkefni á vegum umhverfisvottunarverkefnisins séu framkvæmd.

02/08/2012