Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær auk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, taka þann 8. júní formlega á móti vottun frá alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtökunum Green Globe.

Þetta er merkur áfangi í sjálfbærnisögu Íslands, því sveitarfélögin eru þau fyrstu í Evrópu til að hljóta vottun fyrir stefnu og framkvæmd í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála og fjórða svæðið í heiminum til að ná slíkum árangri.

Eiginlegt vinnuferli hófst árið 2003, en frá þeim tíma hafa orðið geysilegar breytingar á umhverfisstjórnun sveitarfélaganna. Allir leikskólar og fimm grunnskólar af sjö á Snæfellsnesi hafa fengið Grænfánann, hafnirnar í Stykkishólmi og á Arnarstapa eru komnar með Bláfánann en báðir fánarnir undirstrika aukna umhverfisstjórnun og sjálfbærni í rekstri viðkomandi staða.

Úrgangsmál hafa verið stórlega bætt og í öllum sveitarfélögum er nú tekið á móti flokkuðum úrgangi og flest heimili eiga þess kost að vera með endurvinnslutunnu. Stefna sveitarfélaganna er mun skýrari og markvissari í öllum rekstri, innri verkferlar hafa verið bættir og innkaup beinast að umhverfisvottuðum vörum, auk þess sem ýmis öryggismál hafa verið endurskoðuð og yfirfarin.

Vottunarferlið hefur því eflt og skerpt ýmsar áherslur í rekstri sveitarfélaganna og gert þau enn betri fyrir íbúana, um leið og meira tillit er tekið til náttúrunnar. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er aðili að vottuninni og því fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi til að hljóta umhverfisvottun. Á Snæfellsnesi eru jafnframt fleiri vernduð svæði sem falla undir hið vottaða svæði.

Vottun Green Globe verður endurnýjuð árlega og sveitarfélögin setja sér jafnframt markmið um áframhaldandi árlegar úrbætur í rekstri sínum.

Kjartan Bollason úttektaraðili Green Globe á Íslandi mun afhenda forsvarsmönnum sveitarfélaganna og þjóðgarðsverði viðurkenningar um vottunina í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði sunnudaginn 8. júní kl. 14:30. Viðstaddir þessa tímamótaathöfn verða meðal annars forseti Íslands, forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, alþingismenn og aðrir góðir gestir. Allir eru velkomnir.

Deila