Áhugasamur nemendahópur

Fimmtudaginn 10. maí kom í Ráðhús Stykkishólms hópur nemenda, ásamt prófessorum, frá Háskólanum í Quebec í Kanada. Heimsóknin er liður í námskeiði um sjálfbæra ferðaþjónustu og komu nemendurnir gagngert á Snæfellsnes til þess að kynna sér umhverfisvottun sveitarfélaganna, EarthCheck. Hópurinn gisti á Snæfellsnesi í tvær nætur og eyddi þar tveimur dögum. Eftir að hafa fengið kynningu á sögu og framkvæmd umhverfisvottunarinnar á Snæfellsnesi hélt hópurinn í skoðunarferð um Stykkishólm, þar sem hann heimsótti söfn bæjarins. Seinni daginn nýtti hópurinn í ferðalag hringinn í kringum Snæfellsnes og kynnti sér meðal annars Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Áhugi nemenda og kennara á umhverfisvottunarverkefninu var gríðarlegur og í kjölfar heimsóknarinnar var sú hugmynd rædd að sambærileg heimsókn í tengslum við námskeið þetta verði árlegur viðburður á Snæfellsnesi.

Enn er þó ekki allt upptalið vegna þess að í næstu viku kemur á Snæfellsnesið annar erlendur háskólahópur í því skyni að kynna sér umhverfisvottun sveitarfélaganna. Vonandi verður sá hópur jafnáhugasamur og sá fyrri.

 

Deila