Sveitarfélögin á Snæfellsnesi fagna því að hafa hlotið umhverfisvottun EarthCheck 13. árið í röð – til hamingju Snæfellingar!

Þegar við veltum umhverfismálum fyrir okkur, getur verið gott að líta aftur í tímann og spyrja; hverju höfum við áorkað? Erum við að taka skref í rétta átt? Duga þau? Er kominn tími til að stökkva?

Loftslagsváin og umhverfismál hafa verið í brennidepli í umræðunni á heimsvísu síðastliðin ár. Það er alveg ljóst að þessir málaflokkar eru ekkert að fara neitt, við horfumst í augu við afleiðingar neyslumenningar og brennslu jarðefnaeldsneytis og munu umhverfismálin hafa áhrif á ákvarðanatöku okkar í flestum sviðum samfélagsins héðan í frá. En af hverju erum við að taka á þessum málum svona seint? Höfum við ekki búið yfir upplýsingum fyrr en nú?

Bylting plastsins

„Hvernig loftslag verður í heiminum innan tíðar?“ var spurt í Þjóðviljanum árið 1975. Yfirborðshækkun heimshafanna vegna bráðnandi jökla og röskun hitajafnvægis á yfirborði jarðar á nokkrum áratugum voru á meðal tilgáta sem fleygt var fram. „Ef áframhaldandi rannsóknir staðfesta tilgáturnar um miklar loftslagsbreytingar á næstu öld, verður að gera ráðstafanir sem takmarka áhrif iðnaðarþróunar“, segir í greininni. Ári síðar birtist viðtal við hagfræðiprófessor í Danmörku í Heimilistímanum, um safn hans af hinum byltingarkennda plastpoka, sem hafði unnið hug og hjörtu mannkyns og var álitinn árangur „plastaldarinnar“. Vegna áróðurs umhverfisverndarfólks var tekið fram að tilefni væri til að óttast plastpokaleysi. En þessar áhyggjur voru óþarfar, plastið fékk svo sannarlega að njóta sín í allri sinni „dýrð“ og hafði töluverð áhrif á neyslumenninguna – og náttúruna. Ekki leið á löngu þar til fór að bera á háværum umræðum um plastrusl í hafi og á víðavangi á 9. áratugnum. Árið 1989 birtist umfjöllun í DV um mikilvægi þess að við mannfólkið stæðum okkur betur í umhverfismálum, einum mikilvægasta málaflokki þess tíma. Málaflokkur sem þyrfti að takast á við með ströngum lagaramma, verkferlum og aðgerðum.

Göngumst við afleiðingum neyslunnar

Þetta eru aðeins dæmi um umfjallanir sem sýna greinilega að mannkynið hefur um áratugaskeið haft upplýsingarnar um það hvert stefndi. Á sumum sviðum hefur náðst árangur en í alltof mörgum tilfellum höfum við stungið höfðinu í sandinn og flotið sofandi að feigðarósi. En ekki allir. Snæfellingar hafa til að mynda verið ötulir við að hreinsa rusl úr náttúrunni síðastliðin ár. Hreinsunarátökum hefur fjölgað og árlega fara einstaklingar og hópar á vegum frjálsra félagssamtaka, skóla og annarra meðfram vegum og strandlengju og tína rusl – bæði syndir fortíðar og samtímans. Eins aðdáunarvert og það er að sjá allt þetta fólk taka til hendinni, þá þarf að taka á rót vandans sem liggur dýpra. Fyrir örfáum árum fóru landsmenn að hafa áhrif á neysluhegðun með því að mótmæla plastpokanotkun. Jafnvel var talað um að gera samfélög plastpokalaus. Boltinn fór að rúlla og fyrr en varði voru hvatningarátökin víða – heilu bæirnir farnir að sýna að það er vel hægt að lifa án plastpokans. Meðal þeirra sem fyrst tóku skrefið var Umhverfishópur Stykkishólms sem árið 2014 hóf verkefnið „plastpokalaus Stykkishólmur“. Árið 2017 fór átakið „margnota Snæfellsnes“ af stað og vakti athygli á kostum þess að kjósa margnota umbúðir í stað einnota, og að forðast plastið. Plastpokinn er fjarri því að vera eina vandamálið en segja má að hann sé tákn fyrir ósjálfbæran lífstíl okkar. Að fjarlægja þennan einfalda en áhrifamikla hlut úr lífi okkar fær okkur vonandi til að huga að heildarmyndinni og horfast í augu við þann ósjálfbæra lífstíl sem við höfum vanið okkur á. Hvernig tileinkum við okkur slíka hugarfarsbreytingu? Einnota plast er vandamál, rusl í náttúrunni líka, en við þurfum að grafa enn dýpra og kynna okkur lausnir sem eru til staðar. Matarsóun, sorpmyndun, losun gróðurhúsaloftegunda, jarðvegsrof, ágangur á náttúrulegar auðlindir og svo miklu fleira sem við getum tekist á við sem samfélag. Gleymum því ekki að allt sem við kaupum erlendis hefur einhver umhverfisáhrif í framleiðslu og flutningi og veldur álagi á náttúrulegar auðlindir annars staðar í heiminum. Þetta getur t.d. verið mengun vatns, jarðvegs og lofts með brennslu jarðefnaeldsneyti og notkun eiturefna – og við verðum að gangast við því að valda þessum áhrifum.

Tími til að stökkva

Það var samtakamáttur á Snæfellsnesi sem varð til þess að sveitarfélögin á Snæfellsnesi hófu það ferli að fá umhverfisvottun, eitt af þeim skrefum sem hafa verið tekin til að standa vörð um náttúru og samfélag á svæðinu. Ferlið tók nokkur ár, skipulagsbreytingar og aðlaganir í takt við breyttan heim, og á endanum fengum við umhverfisvottun EarthCheck árið 2008. Vottunin er ekki árangurinn í sjálfu sér, heldur staðfesting á árangri og framförum. Í þrettán ár höfum við verið með umhverfisvottunina og berum hana stolt. Við höfum í samvinnu við samfélagið reynt að minnka einnota og barist fyrir margnota, við höfum hreinsað strendur, sveitir og bæi í áraraðir, safnað tugi tonna af rusli úr náttúrunni og komið á fót skráningarkerfi sem gefur miklu betra yfirlit um auðlindanotkun á vegum sveitarfélaganna. Börnin okkar hafa mun greiðari aðgang að upplýsingum um loftslagsbreytingar og umhverfismál í skólum og félagsstarfi en áður. Aðgengi að nokkrum viðkvæmum og vinsælum stöðum á Snæfellsnesi hefur verið bætt með hag fólks og verndun náttúrunnar að leiðarljósi, og sú vinna heldur áfram. En við stoppum ekki hér því verkefninu lýkur aldrei. Sveitarfélögin munu koma sér upp loftslagsstefnu þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er metin út frá auðlindanotkun, sorpmyndun og innkaupum. Jafnframt verður farið í markvissar aðgerðir til að uppfylla sett markmið. Áfram verður leitast við að auka þekkingu íbúa á því hvernig við getum gert betur.

Við mannfólkið höfum of lengi litið fram hjá þeim umhverfisvandamálum sem blasa við. Afleiðingarnar eru mismiklar eftir svæðum en við getum ekki hunsað þær lengur. Þær aðgerðir sem við grípum til virðast kannski smávægilegar í stóra samhenginu – við drögum ekki úr því að Snæfellsjökull hopi með því einu að hjóla í vinnuna. En við höfum áhrif út á við, til nágranna okkar, til næsta bæjar, til vinabæja okkar erlendis og víðar, og sýnum fordæmi með því að takast á við þetta verkefni sem er í höndum okkar allra í dag. Enginn getur gert allt en allir þurfa að gera eitthvað. Margt smátt gerir eitt stórt.

Umræður síðastliðna áratugi eiga sér hliðstæður í samtímanum, en við verðum að hafa það hugfast að við höfum ekki fimm áratugi í viðbót til þess að láta sannfæra okkur um að við þurfum að breyta okkar hegðun. Við þurfum að draga úr neyslu, flokka ruslið betur, keyra minna, styrkja kolefnisbindingu með landgræðslu og endurheimt votlendis og hætta að ganga á auðlindir heimsins eins og þær séu endalausar. Förum með þetta hugarfar í vinnuna, í félagsstarfið, í rannsóknarverkefnið og í stjórnsýsluna. Tökum stökkið og tileinkum okkur öll þær lífstílsbreytingar sem til þarf.

Deila