Frétt og ljósmynd af vef Stykkishólmspóstsins.

Grænfáninn er líkt og Bláfáninn, alþjóðleg viðurkenning á að skólarnir hafa náð að uppfylla ákveðin skilyrði í umhverfismálum. Til að fá fánann þá skráðu skólarnir sig í verkefnið „á grænni grein“ sem er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Í því verkefni stíga skólarnir skrefin sjö í umhverfismálum og þegar þeim er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum næstu tvö árin og geta svo endurnýjað það ef skólarnir halda sínu góða starfi áfram í umhverfismálunum.

Það er allur gangur á því hvernig gengur í skólunum að stíga skrefin sjö en hér gekk þetta mjög hratt fyrir sig, bæði hjá leikskólanum og grunnskólanum. Krakkarnir enda mjög áhugasöm um verkefnið sem er nauðsynlegt því í því felst ákveðin lýðræðishugsun líka sem krefst þess að krakkarnir séu virkir þátttakendur í ferlinu í stað þess að unnið sé bara eftir skipun frá stjórnendum að ofan.
Það voru Bryndís Þórisdóttir og Rannveig Thoroddsen sem komu fyrir hönd Landverndar og afhentu fánana í gær. Í Grunnskólanum var svo slegið upp grillveislu á eftir með öllum nemendum skólans enda síðasti skóladagurinn hjá þeim. Krakkarnir í 1-3.bekk sungu en það voru raunar þau ásamt 4.bekk sem var líka upp í gamla skóla um tíma, sem voru að hljóta Grænfánann. Sama var upp á teningnum hjá Leikskólanum þar fögnuðu allir með söng og grilli og þar höfðu allir mætt í einhverju grænu í tilefni dagsins. Allt er vænt sem vel er grænt.

Deila