Í nýjasta fréttabréfi fyrir úttektaraðila EarthCheck samtakanna, sem gefið var út nú í október, birtist grein eftir Kathy Colgan.Kathy er einmitt ástralski úttektaraðilinn sem heimsótti Snæfellsnes í maíbyrjun vegna úttektar fyrir vottun ársins 2010.

Í greininni kemur fram að Kathy hefur unnið að úttekt fyrirtækja og samfélaga fyrir EarthCheck í fjögur ár, auk þess sem hún sinnir ráðgjafarstörfum í umhverfis- og sjálfbærnismálum. Hún segist hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi í starfi sínu að ferðast víða um heim og heimsækja áhugaverða staði. Sá staður sem hún kýs að fjalla sérstaklega um í þessari grein sinni er Snæfellsnes.

Kathy eyddi þremur dögum á Snæfellsnesi þar sem hún fræddist um það hvernig staðið væri að EarthCheck verkefninu á svæðinu. Hún segir að eitt af því sem upp úr standi eftir ferðina sé hversu ákveðin sveitarfélögin séu í að halda áfram EarthCheck vinnu sinni, þrátt fyrir erfiðan fjárhag. Ennfremur minnist hún á hversu mjög hún hreifst af flokkunarstöðinni sem hún skoðaði. Hún kvað hanaeinstaklega hreinlega og skipulagða, auk þess sem lífrænn úrgangur væri þar moltaður af hugkvæmni.

Í lok greinar sinnar segir Kathy: „Ef þið hafið möguleika á því, setjið þá Ísland á listann yfir staði til að heimsækja og farið sérstaklega á Snæfellsnes og sjáið hvað sveitarfélögin þar eru að gera til þess að leggja sitt af mörkum í átt að sjálfbærni“.

Sjá fréttabréfið í heild hér. Greinin er á bls. 2.

Deila