Í dag birtist í svæðisblöðunum, Stykkishólmspóstinum, Jökli og Skessuhorninu, fyrsta greinin úr greinaröð um umhverfisvottun Snæfellsness. Ætlunin er að birta næstu greinar á komandi vikum og gefa íbúum og öðrum áhugasömum þannig tækifæri til þess að fá betri innsýn í verkefnið.

Þessi fyrsta grein birtist hér að neðan:

Umhverfisvottun sveitarfélaga á Snæfellsnesi

Eins og flestum íbúum Snæfellsness er væntanlega kunnugt hafa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hlotið umhverfisvottun sem gengur undir nafninu EarthCheck (áður Green Globe). Vottunin nær til starfsemi sveitarfélaganna og stofnana á þeirra vegum.

En hvað er þetta EarthCheck? Hvaða tilgangi þjónar slík vottun? Hvað hefur áunnist? Græðum við eitthvað á þessu? Er einhver framtíð í þessu? Þessar og ótal fleiri spurningar koma upp í hugann í sambandi við EarthCheck umhverfisvottunina. Á næstu vikum mun ég í stuttri greinaröð leitast við að svara einhverjum þessara spurninga og gera um leið grein fyrir verkefninu sem sveitarfélögin hafa djarflega unnið að á síðustu árum.

Í þessari fyrstu grein rifja ég stuttlega upp sögu vottunarverkefnisins á Snæfellsnesi. Hugmyndin að því að sækja um umhverfisvottun fyrir Snæfellsnes kviknaði árið 2002. Árið eftir hófu sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, umfangsmikla undirbúningsvinnu að umhverfisvottun Green Globe (nú EarthCheck) samtakanna fyrir að vera umhverfismeðvitað samfélag sem vinnur að lausnum í átt til sjálfbærari starfshátta. En sjálfbær þróun hefur í stuttu máli verið skilgreind sem þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.

Vinna fyrstu ára var flókin og tímafrek, enda var um frumkvöðlaverkefni að ræða þar sem finna þurfti leiðir og lausnir sem ekki var til uppskrift að. Þann 8. júní 2008 hlaut Snæfellsnes loks umhverfisvottun við hátíðlega athöfn að viðstöddum forseta Íslands, þingmönnum, sveitarstjórnarfólki og fjölda gesta. Áfanginn vakti verðskuldaða athygli innan lands sem utan þar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og fjórða samfélagið í heiminum öllum. Vottunin fékkst svo endurnýjuð eftir úttekt í fyrrasumar og næsta úttekt verður sumarið 2011.

Eftir nokkra bið hafa loks fánar með merkjum EarthCheck verið dregnir að hún á Snæfellsnesi og loksins geta sveitarfélögin auglýst á áberandi hátt þann glæsilega áfanga sem umhverfisvottunin er. Enn fremur er kominn skriður á skiltamál verkefnisins eftir langa bið. Skiltin við mörk á Snæfellsness (við Haffjarðará og í Álftafirði), sem enn bera Green Globe merkingu, munu fljótlega skarta merki EarthCheck.

Í næsta greinarstúf verður leitast við að svara því hver tilgangurinn með umhverfisvottun sveitarfélaga sé.

Theódóra Matthíasdóttir (theo@nsv.is), umhverfisfulltrúi Snæfellsness

Deila