Skref í rétta átt!

Þessa dagana er ritið Skref í rétta átt á leiðinni á öll heimili á Snæfellsnesi en í því er fjallað um umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og hverju hún hefur skilað. Fyrir útgáfu ritsins standa Framkvæmdaráð Snæfellsness og Náttúrustofa Vesturlands en útgáfan var styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í ritinu er meira en áratugar saga umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness rakin og verkefnið útskýrt. Um leið er reynt að reynt að svara þeim spurningum sem forsvarsmenn verkefnisins hafa fengið í gegnum tíðina.

Með ritinu fylgir margnota innkaupapoki merktur umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness og er hann gjöf frá sveitarfélögunum á Snæfellsnesi. Á honum er að finna slagorðin hugsum áður en við kaupum og hugsum áður en við hendum. Íbúar eru hvattir til þess að tileinka sér þessi einkunnarorð um leið og skorað er á alla að hætta að nota plastburðarpoka og leggja með því grunn að plastpokalausu Snæfellsnesi.

Ritinu og pokanum var ekki dreift á heimili þar sem fjölpóstur hefur verið afþakkaður. Því fólki er velkomið að láta vita hjá sínu sveitarfélagi.   

Endurnýjuð framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna 2016-2020

Framkvæmdaáætlun er eitt af grundvallarskjölum umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness. Vottunarsamtökin gera kröfur til þess að sveitarfélögin setji sér fram
kvæmdaáætlun til fimm ára í senn, sem svo er endurskoðuð árlega.

Eins og nafnið bendir til er það lýsing á helstu umhverfistengdu verkefnum sveitarfélaganna komandi ár. Við gerð hennar þarf að finna jafnvægi á milli metnaðar og væntinga um framfarir annars vegar og raunsæi með tilliti til fjárveitinga hins vegar.

Í febrúar síðastliðnum samþykkti Framkvæmdaráð Snæfellsness endurskoðaða framkvæmdaáætlun fyrir sveitarfélögin fimm og hana má nálgast hér.

 

 

Snæfellsnes einn af hundrað grænustu áfangastöðum heims

Snæfellsnes er einn af 100 grænustu áfangastöðum heims samkvæmt nýbirtum lista sem opinberaður var í gær, 10. desember.

Um er að ræða verkefni sem kallað er „Global Top 100“. Þar er tekið saman yfirlit yfir þá hundrað staði í heiminum sem þykja skara fram úr á sviði umhverfismála.  Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra aðila sem hafa sérhæft sig í rannsóknum og markaðssetningu grænna áfangastaða og nefnast samtökin „Green Destinations“. Tilgangurinn er að veita áfangastöðum, sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi, viðurkenningu og auðvelda um leið kröfuhörðum ferðamönnum val um áfangastaði.

Listinn var fenginn þannig að kallað var eftir tilnefningum í gegnum samfélagsmiðla. Svo tók við þrjátíu manna dómnefnd skipuð sérfræðingum í ferðamálum og sjálfbærni, sem gaf einkunnir fyrir fjölmarga þætti, þar á meðal náttúru, umhverfi, náttúruvernd, menningararf og umhverfisvottun.

Áfangastöðunum 100 er ekki raðað í neina sérstaka röð en á heimasíðu verkefnisins má raða áfangastöðunum niður á mismunandi vegu eftir einkunnum fyrir hvern þátt.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Snæfellsnes og staðfesting á því að sú vinna sem hér er unnin er metin að verðleikum, sem mun vonandi skila sér samfélagsins. Umhverfismál skipta sífellt stærra máli í ferðaþjónustu og ferðamenn gera sífellt strangari kröfur til áfangastaða.

Talsmenn „Global Top 100“ hvetja ferðamenn til að velja áfangastaði sem vinna að raunverulegum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum. En viðurkennd vottun óháðs aðila, eins og umhverfisvottun Snæfellsness er, veitir einmitt aukinn trúverðugleika hvað það varðar.

Frekari upplýsingar er að finna á www.greendestinations.info.

Framkvæmdaáætlun í umhverfismálum

Eitt af grundvallarskjölum umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness er svokölluð Framkvæmdaáætlun Snæfellsness. Áætlunin er gerð til fimm ára í senn og þar kemur fram í hvaða verkefni sveitarfélögin muni ráðast til að bæta frammistöðu sína með tilliti til sjálfbærnivísa og umhverfismála almennt.

Árið 2013 var hafist handa við að endurnýja umrædda áætlun og stokka hana algjörlega upp frá þeirri sem fyrir var. Áætlunin hefur nú verið samþykkt í öllum þeim fimm sveitarfélögum sem að verkefninu standa. Settur er fram verkefnalisti til ársins 2018 með það í huga að auðvelda yfirsýn, sem m.a. er gert með því að hafa ákveðin þemu eftir árum. Við forgangsröðun verkefna var stuðst við vilja sveitarstjórna og íbúa sem fram kom í íbúakönnunum á vegum verkefnisins. Við gerð áætlunarinnar var leitast við að byggja á reynslu fyrri ára, hafa framsetningu einfalda og skipulega, útfæra raunhæf verkefni, tilgreina tímamörk og skilgreina ábyrgðaraðila hvers verkefnis.

Hérna er hægt að nálgast áætlunina.

Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)