Framkvæmdaáætlun í umhverfismálum

Eitt af grundvallarskjölum umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness er svokölluð Framkvæmdaáætlun Snæfellsness. Áætlunin er gerð til fimm ára í senn og þar kemur fram í hvaða verkefni sveitarfélögin muni ráðast til að bæta frammistöðu sína með tilliti til sjálfbærnivísa og umhverfismála almennt.

Árið 2013 var hafist handa við að endurnýja umrædda áætlun og stokka hana algjörlega upp frá þeirri sem fyrir var. Áætlunin hefur nú verið samþykkt í öllum þeim fimm sveitarfélögum sem að verkefninu standa. Settur er fram verkefnalisti til ársins 2018 með það í huga að auðvelda yfirsýn, sem m.a. er gert með því að hafa ákveðin þemu eftir árum. Við forgangsröðun verkefna var stuðst við vilja sveitarstjórna og íbúa sem fram kom í íbúakönnunum á vegum verkefnisins. Við gerð áætlunarinnar var leitast við að byggja á reynslu fyrri ára, hafa framsetningu einfalda og skipulega, útfæra raunhæf verkefni, tilgreina tímamörk og skilgreina ábyrgðaraðila hvers verkefnis.

Hérna er hægt að nálgast áætlunina.

Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi tilnefnd til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014

Í ár eru náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs tileinkuð norrænu sveitarfélagi/bæjarfélagi/samfélagi sem hefur lagt sig fram um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í víðum eða þröngum skilningi. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð þrettán fulltrúum, tveimur frá hverju Norðurlandanna, einum frá Grænlandi, einum frá Færeyjum og einum frá Álandseyjum.

Dómnefndin hefur nú kunngjört ákvörðun sína um hvaða svæði hún tilnefnir til verðlaunanna árið 2014. Alls bárust þrjátíu tilnefningar frá almenningi og dómnefndin hefur valið þrettán þar út. Meðal þessara þrettán svæða eru sveitarfélögin á Snæfellsnesi og höfum við því færst örlítið nær markinu.

Endanlega ákvörðun um vinningshafann verður tekin í september en gerð opinber þann 29. október 2014 á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Frekari upplýsingar um verðlaunin er að finna á www.norden.org.

Þau þrettán svæði sem nefndin hefur tilnefnt eru:

 

 • Lokalsamfunnet Gjógv (Færøerne)
 • Gladsaxe, sveitarfélag (Danmörk)
 • Hallstahammars, sveitarfélag (Svíþjóð)
 • Jyväskylä, bær (Finnland)
 • Lejre, sveitarfélag (Danmörk)
 • Iin Kunta / Ljo, sveitarfélag (Finnland)
 • Middelfart, sveitarfélag (Danmörk)
 • Reykjavík, sveitarfélag (Ísland)
 • Saligaatsoq – Avatangiiserik, verkefni (Grænland)
 • Skaftholt í sveitarfélaginu Skeiða- og Gnúpverjahreppi (Ísland)
 • Snæfellsnes, samstarf fimm sveitarfélaga (Ísland)
 • Sólheimar (Ísland)
 • Växjö, sveitarfélag (Svíþjóð)

Vorboðinn ljúfi – endurnýjuð umhverfisvottun!

Það er mér sönn ánægja að tilkynna að sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa hlotið endurnýjaða umhverfisvottun á starfsemi sinni frá EarthCheck samtökunum.

Eins og árlegt er orðið mætti óháður úttektaraðili, Haukur Haraldsson gæðastjóri hjá Verkís, á svæðið í febrúar. Eftir tveggja daga úttekt, þar sem meðal annars var farið rækilega yfir öll þau gögn sem verkefninu tengjast, mælti hann með því að EarthCheck endurnýjaði vottun sveitarfélaganna. Það gekk eftir og nú skarta sveitarfélögin á Snæfellsnesi gullvottun frá EarthCheck samtökunum fyrir árið 2014.

Vinna við umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi hófst árið 2003 og hefur verið unnið sleitulaust að verkefninu síðan. Í tilefni af tíu ára afmæli verkefnisins er unnið að gerð veglegs rits um umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaga. Ritið verður tvískipt; annars vegar verður fjallað almennt um umhverfisvottanir og aðrar leiðir sem sveitarfélög geta farið í átt að sjálfbærara samfélagi. Hins vegar verður fjallað um tíu ára reynslu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi af umhverfisvottun EarthCheck og gerð grein fyrir ávinningi hennar ásamt þeim hindrunum sem orðið hafa á veginum í gegnum tíðina, hvernig þeim hefur verið mætt og hvað betur mætti fara til þess að ná enn betri árangri. Ritið er ætlað sem upplýsingarit fyrir íbúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi sem og til leiðbeiningar fyrir önnur sveitarfélög sem vilja bæta sig í umhverfismálum.

Stefnt er að því að ritið verði tilbúið á næstu vikum og verður því dreift á öll heimili á Snæfellsnesi, svo íbúar geta farið að hlakka til.

 Theódóra Matthíasdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (theo@nsv.is)

Bláfánanum flaggað í 11. sinn við Stykkishólmshöfn

Á morgun, þriðjudaginn 2. júlí kl. 13:00, munu fulltrúar frá Landvernd afhenda smábátahöfninni í  Stykkishólmi  Bláfánann í 11. sinn.  Athöfnin fer fram við Hafnarvogina og eru íbúar og gestir Stykkishólms að sjálfsögðu velkomnir.

Bláfáninn var fyrst afhendur Stykkishólmshöfn þann 13. júní 2003. Smábátahöfnin í Stykkishólmi var fyrsta höfnin til að hljóta þessa alþjóðlegu viðurkenningu hér á landi.

Bláfáninn er alþjóðlegt merki fyrir hafnir sem uppfylla ströng skilyrði í umhverfis- og öryggismálum og hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Smábátahöfnum er veittur Bláfáninn hafi þær lagt sig fram um að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu í höfninni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þessi viðleitni á að treysta verndun umhverfis hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á og vera öllum þeim sem nota eða heimsækja höfnina til hagsbóta.

Það eru alþjóðasamtökin Foundation for Enviromental Education, sem Landvernd á aðild að, sem standa að baki þessu merki. Stykkishólmshöfn hefur hlotið þessa viðurkenningu og flaggað Bláfánanum á hverju ári síðan 2003.